Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 18:23:52 (1019)

2000-10-31 18:23:52# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[18:23]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Hera forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að Íslendingar taka daginn mun seinna en aðrar þjóðir og þessu taka erlendir ferðamenn eftir þegar þeir koma hingað, þessu drolli okkar fram eftir öllum kvöldum og því að við förum aldrei á fætur á morgnana.

Sagt er að morgunstund gefi gull í mund. Bændur eru vanir því að fara snemma á fætur. Þeir taka daginn snemma og vita að morgunverkin eru oft æði drjúg.

Þegar rætt er um opnunartíma opinberra stofnana og verslana þá hefur það oft vakið furðu mína að verslanir eru ekki opnaðar fyrr en klukkan tíu á morgnana eða klukkan ellefu þegar ég vil byrja morgunverk mín t.d. klukkan sjö. Þetta hef ég bara ekki getað skilið.

Ferðamennirnir ganga yfirleitt mjög snemma til náða og við vitum að það fer oft ekki saman, sérstaklega á tjaldstæðum, að íslenskir ferðamenn og erlendir séu á sama svæði. Oft þarf að aðskilja þá, e.t.v. vegna þess að Íslendingar eru að þessu drolli fram eftir öllum kvöldum meðan erlendu ferðamennirnir fara snemma í háttinn og fara snemma á fætur á morgnana.