Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 18:32:18 (1023)

2000-10-31 18:32:18# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[18:32]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Af því að klukkan fór illa með mig áðan þá ætla ég að koma með seinni hluta spurningarinnar til hv. 3. þm. Norðurl. e.

Hvað með sumartíma sem einstök fyrirtæki taka upp --- einstök fyrirtæki, ekki öll --- m.a. að kröfu fólks sem vill njóta síðdegisins? Leikskólar þurfa stundum að taka upp sumartíma fyrir þau fyrirtæki og vegna atvinnulífsins hjá þeim fyrirtækjum sem taka upp sumartímann. En það hentar kannski ekki öllum og væri þá ekki betra að gera þetta í einu lagi fyrir alla.

Hitt atriðið er að ég tók eftir því að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson ræddi áðan um og taldi miður að þetta væri fyrst og fremst fyrir viðskiptalífið en ekki almenning. Þó held ég að við séum sammála um að hvort tveggja fari saman. Hann á hér einn skoðanabróður, hv. 3. þm. Norðurl. e., Steingrím J. Sigfússon. Þeir finna frv. allt til foráttu og telja að hv. 1. flm. þess, Vilhjálmur Egilsson, sé eingöngu að flytja þetta vegna þess að hann starfar einnig sem framkvæmdastjóri Verslunarráðs og þetta frv. sé fyrst og fremst flutt fyrir viðskiptalífið. Það er bara alls ekki rétt.

Rétt í lokin, herra forseti. Hv. þm. ræddi um að 1. flm. og okkur flutningsmönnum væri ekki alvara í þessu máli. Okkur er alvara. En ég verð að segja að dæmisagan sem hv. þm. skýrði frá í byrjun er ekki þess eðlis að hægt sé að taka hv. þm. alvarlega í þessu máli, nema ástæðan sé að hann kunni hreinlega ekki við sig í þessum ágæta ræðustól nema vera á móti því sem kemur frá öðrum en honum sjálfum og samflokksmönnum hans.