Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 19:11:08 (1036)

2000-10-31 19:11:08# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[19:11]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur mér nokkuð á óvart að hv. þm. Guðjón Guðmundsson skuli mæla gegn þessu frv. þar sem hann er kunnur af miklum stuðningi við íþróttahreyfinguna og starfar mjög mikið fyrir hana. Það kemur fram í umsögnum frá Knattspyrnusambandinu, Frjálsíþróttasambandinu og fleiri samtökum íþróttamanna að þarna sé um afar mikilsvert mál að ræða sem muni skipta íþróttahreyfinguna mjög miklu. Þar sem hv. þm. finnur ekki rök fyrir breytingunni í grg. sem fylgir frv. skal ég koma til hans þeim umsögnum sem íþróttahreyfingin sendi varðandi málið. Þar koma fram mjög góð rök fyrir því að sumartími skuli tekinn upp og að það varði hagsmuni íþróttahreyfingarinnar mjög miklu.

Hann dró fram að engin sérstök vandamál fylgdu því að halda áfram þessum tíma en ég bendi þá einmitt á þessa hagsmuni íþróttahreyfingarinnar. Ég bið hv. þm. um að íhuga það mjög vandlega.

Að síðustu nefndi hann atvinnumál á Austurlandi og spurði hvort þetta mundi bjarga öllu þar. Ég fullyrði að þetta mundi hafa mjög góð áhrif á atvinnulíf á Austurlandi. Það mun bæta mjög mannlíf á Austurlandi ef sumartími verður tekinn upp sem hefur jafnframt góð áhrif á atvinnulífið þar.