Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 19:13:12 (1037)

2000-10-31 19:13:12# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[19:13]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að ég mikill íþróttaáhugamaður. Ég hef starfað mikið að þeim málum og starfa enn sem betur fer. Það er afskaplega skemmtilegt og mannbætandi að starfa að íþróttamálum. En ég verð að segja að þær tilvitnanir í Knattspyrnusambandið sem eru í greinargerðinni vega ekki þungt í mínum huga. Það er í fyrsta lagi þetta sem ég nefndi áðan með beinar útsendingar á knattspyrnuleikjum. Ég er einfaldlega ósammála því eins og ég tók fram. Þó að ég starfi að íþróttamálum er ég ekkert endilega sammála því þegar menn senda frá sér dellu eins og þessa.

Eins er greint frá því varðandi knattspyrnusambandið, með leyfi forseta, að það sé ,,í miklum samskiptum við önnur knattspyrnusambönd í Evrópu, sem og UEFA og FIFA sem eru í Sviss, og væri það til mikilla hagsbóta ef tími til samskipta við þessa aðila ykist``.

Ég segi bara, þegar hv. þm. nefnir hagsmuni íþróttahreyfingarinnar: Ef þetta eru hagsmunir íþróttahreyfingarinnar, þá hef ég eitthvað misskilið út á hvað hennar hagsmunir ganga.