Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 19:14:29 (1038)

2000-10-31 19:14:29# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[19:14]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að ég skuli ekki vera með umsagnir íþróttahreyfingarinnar við höndina. Það er ekki tekið nákvæmlega upp í grg. það sem kannski varðar hana mestu, að fá rýmri tíma til þess að skipuleggja íþróttaleiki. Það voru þau rök sem ég tók best eftir á sínum tíma í umsögnum frá knattspyrnusambandinu, ÍSÍ, og einnig frá golfmönnum. Að hafa lengri tíma til að stunda útiíþróttir yfir sumartímann. Það eru þau rök sem mér finnst skipta mestu. Ég býst við að það sé sama óhagræði fyrir þessi sambönd að eiga viðskipti sín við systursambönd sín í Sviss og annars staðar eins og er fyrir atvinnulífið. Hv. þm. hefur ekki veitt því mikla athygli að atvinnulífið hafi eitthvert gagn af þessu. Ég bendi enn og aftur á þau rök sem komu fram í umsögnum íþróttahreyfingarinnar og mun koma þeim til hv. þm. þannig að hann sjái það sem þar er tínt til og varðar það að hafa lengri tíma til þess að stunda útiíþróttir að sumrinu.