Skráning skipa

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:19:39 (1207)

2000-11-02 11:19:39# 126. lþ. 19.1 fundur 118. mál: #A skráning skipa# (kaupskip) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:19]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. mjög. Íslenski kaupskipastóllinn með íslenskum fána er allt of sjaldgæfur og sjaldséður orðinn. Því miður er mikið um það og þær breytingar hafa orðið í hinum viðskiptalega heimi kaupskipa að meira og meira er af því gert að taka skipin ýmist á þurrleigu og almennt mönnuð íslenskum sjómönnum eða tímaleigu og er þá hluti áhafnar eða jafnvel öll áhöfnin erlend. Hér er frv. sem gengur út á það að útgerðarmönnum sem taka skip á svokallaða þurrleigu er gert kleift að setja skip undir íslenska fána og er það vel. Ég fagna því þessu frv. og styð það heils hugar.