Varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 12:16:23 (1220)

2000-11-02 12:16:23# 126. lþ. 19.2 fundur 47. mál: #A varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum# þál., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[12:16]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil blanda mér aðeins í þessa umræðu um till. til þál. um varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum eins og þar stendur.

Ég vil minna á að Alþingi afgreiddi jarðgangaáætlun fyrir stuttu, en sú áætlun gerði ráð fyrir því að á árunum 2000--2004 yrðu settir verulegir fjármunir til rannsókna og síðan til framkvæmda við jarðgangagerð. Þau verk sem þar er um að ræða í fyrsta áfanga eru annars vegar jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og hins vegar milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Gert er ráð fyrir rannsóknum og framkvæmdum hvað varðar þau göng og síðan rannsóknum til undirbúnings jarðganga á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þarna er um að ræða 100 millj. í ár og 200 millj. á næsta ári til rannsókna og síðan 50 millj. á ári til rannsókna, en 1.400 millj. til framkvæmda hvert þessara þriggja ára, 2002, 2003 og 2004.

Þessi áætlun sem var samþykkt byggði á ítarlegri skýrslu um jarðgangagerð sem ég lagði fyrir þingið og hafði verið unnin af Vegagerðinni, að sjálfsögðu í samráði eða í samstarfi við hina ýmsu aðila í landshlutunum.

Þess vegna verð ég að viðurkenna að sú tillaga sem hér er til umræðu kom mér nokkuð í opna skjöldu og á óvart vegna þess að sú hugmynd sem hér er sett fram var ekki til skoðunar í þeirri stóru skýrslu sem Vegagerðin vann og ég lagði fyrir þingið. Þar var um að ræða tillögur um jarðgöng á 24 stöðum á landinu. Sú hugmynd sem hér er til umræðu var ekki á þeim lista. Ég minnist þess ekki að í þeim umræðum sem fram fóru kæmu margar tillögur um að það bæri að taka inn í þessa skoðun þau mjög svo umfangsmiklu jarðgöng sem hér er verið að tala um.

Auðvitað er nauðsynlegt að hv. þm. fái færi á að koma hugmyndum sínum fram, en það er alveg ljóst að hér er um að ræða verkefni sem er ekki á dagskrá og þess vegna held ég að ekki sé rétt að vekja neinar falskar vonir um að farið verði út í þá framkvæmd sem hér er verið að gera tillögu um að hefja skoðun á. Auk þess sem það liggur fyrir að þau feiknarlegu miklu umsvif, þær miklu framkvæmdir sem eru í vegagerð og undirbúningur við jarðgangagerðina hefur nánast tekið alla afkastagetu Vegagerðarinnar og ríflega það hvað varðar frekari rannsóknir um sinn.

Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga að menn setji fram tillögur, en ljóst er að ég gæti ekki lofað því, ef þessi tillaga verður samþykkt, að Vegagerðin gæti sett af stað neins konar rannsóknir eða athugun á þeirri hugmynd sem hér er til umræðu.

Ég vildi að þetta kæmi fram þannig að ekki væri verið að vekja neinar falskar vonir um að hægt yrði að leggja í mikla vinnu við skoðun á þessari hugmynd.