Flutningur hættulegra efna um jarðgöng

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 14:11:36 (1241)

2000-11-02 14:11:36# 126. lþ. 19.5 fundur 93. mál: #A flutningur eldfimra efna um jarðgöng# þál., Flm. GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[14:11]

Flm. (Guðjón Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær ágætu umræður og góðu undirtektir sem þessi tillaga okkar hefur fengið. Ég tek undir það með hv. þm. Kristjáni L. Möller að það er svo sem undarlegt að þurfa að flytja slíka tillögu á Alþingi en það er gert vegna þess að það gerist ekkert í málinu. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni voru lögreglustjóraembættinu í Reykjavík sendar þessar alvarlegu ábendingar Vinnueftirlitsins 19. maí í vor. Það er tæplega hálft ár síðan og ekki hefur bólað á neinum breytingum á reglum um umferð um göngin. Þess vegna er tillagan flutt til þess að Alþingi geti sýnt vilja sinn í að þessar reglur verði settar.

Í bréfi Vinnueftirlitsins sem sent var lögreglustjóra og Vegagerðinni kemur náttúrlega fram mjög alvarleg ábending þar sem stjórn Vinnueftirlitsins segir að þeir hafi fjallað um hvort nægar öryggisráðstafanir séu gerðar vegna flutnings hættulegra efna um Hvalfjarðargöngin, og eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, með leyfi hæstv. forseta, segir þar:

,,Ljóst er að verði alvarlegt óhapp við eldsneytisflutning um göngin þannig að eldur komist í farm flutningabifreiðar mun mikil hætta stafa af fyrir alla sem í göngunum kynnu að vera. Flutningur própangass um göngin skapar enn meiri hættu ef slys ber að höndum. Reynsla erlendis sýnir að ef farartæki með slíkan farm lendir í óhappi getur hlotist af sprenging sem veldur gríðarlegu tjóni. Hættan eykst enn frekar ef óhapp á sér stað í lokuðu rými eins og göngin eru. Því ætti að koma til álita að heimila ekki slíkan flutning um göngin, a.m.k. á meðan þau eru opin fyrir annarri umferð.``

Hv. þm. Jóhann Ársælsson hugleiddi það einmitt hvort ekki mætti bregðast við með því að loka göngunum á tilteknum tíma sólarhrings og það er auðvitað alveg til skoðunar og er reyndar eitt af því sem lagt er til í tillögunni að verði athugað. Göngin hafa t.d. þessa viku verið lokuð að ég held í þrjár nætur frá miðnætti til klukkan sex vegna þess að verið er að koma þar upp einhverjum búnaði til þess að mæla ökuhraða, sem er auðvitað hið ágætasta mál og öryggismál í göngunum.

Persónulega teldi ég best að banna þessa flutninga algjörlega. Það mundi leysa öll vandamál hvað varðar Hvalfjarðargöng vegna þess að góður vegur er fyrir Hvalfjörð og það er sjóleið upp á Akranes þar sem olíufélögin eiga sínar birgðastöðvar og þess vegna er alveg að meinalausu hægt að banna flutninga um Hvalfjarðargöng. Það gildir auðvitað nokkuð annað um ýmis önnur göng þar sem ekki eru aðrar leiðir til staðar og þar verða menn auðvitað að bregðast við með því að loka fyrir umferð.

Ég nefndi áðan áhættumat Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, sem birtist í DV fyrr á þessu ári þar sem leiddar eru líkur að því að eldur geti orðið í smábíl í göngunum á sex ára fresti og í stórum bíl á 24 ára fresti. Það eru auðvitað engin sérstök vísindi, held ég, á bak við þessa úttekt, en hvort sem þessi úttekt er rétt eða ekki og hvort sem slík óhöpp verða á margra ára fresti eða skemur megum við einfaldlega ekki bjóða upp á möguleikann á slíku slysi því að einn eldsvoði í þessum göngum gæti valdið óbætanlegum skaða. Það er rétt sem hv. þm. Ásta Möller nefndi í ræðu sinni að skelfilegt slys varð í jarðgöngum í Sviss á síðasta ári og ég held að það sé rétt með farið að það hafi verið annað stórslysið sem varð vegna eldsvoða í jarðgöngum í Evrópu núna á tveimur eða þremur árum. Þess vegna verðum við að bregðast við og herða reglur, því fyrr því betra. Ég vona að samgn. þingsins taki á þessu máli af velvilja og afgreiði það sem fyrst eins og hér hefur komið fram hjá einstökum nefndarmönnum. Ég ítreka síðan þakkir mínar fyrir ágætar umræður og góðar undirtektir við þetta mál.