Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 14:36:58 (1248)

2000-11-02 14:36:58# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum. Ég kem hér til þess að lýsa ánægju minni með þetta mál og styð að það fái umfjöllun í samgn. en á sama tíma held ég að nauðsynlegt sé að fara yfir flugmálin innan lands í breiðara samhengi.

Við verðum að átta okkur á því að það er ekkert tilfallandi að flugferð frá Akureyri til Reykjavíkur er orðin dýrari en frá Keflavík til næstu stórborga í Vestur-Evrópu. Það er engin tilviljun. Samkeppnistímabilið varð okkur dýrt. Mönnum var att saman í samkeppni án nokkurra skilyrða sem leiddi til þess að á örskömmum tíma át það upp eigið fé tveggja flugfélaga sem hlýtur síðan að leiða til þess að við stöndum frammi fyrir þeim verðum sem við höfum í dag meðan eitt flugfélag stendur í samkeppninni og er að byggja upp sitt eigið fé á nýjan leik eftir hrunadans samkeppninnar. Þetta er ömurleg staða og það verður að skoða þessi mál í nýju ljósi.

Þetta frv. til laga tekur að vísu á þessari nýorðnu skattlagningu sem ég hlýt að styðja að verði farið yfir en við skulum ekki gleyma öðru. Úti á landi eru tveir flugvellir, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur. Í umræðunni um Schengen á síðasta þingi var hér rætt um það fullum fetum að nauðsynlegt væri samfara uppbyggingunni í Keflavík að byggð væri upp aðstaða á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík til þess að standast samkeppni varðandi Schengen. Í mínu sveitarfélagi, á Akureyri, hefur verið eytt milljónum króna til þess að geta tekið á móti beinu flugi frá útlöndum. Það hefur tekist að ná beinu flugi á Akureyrarflugvöll með ferðamenn frá Sviss. Nú standa mál þannig að vegna aðstöðuleysis, eins og bent var á í sambandi við flugið á Egilsstaði, Reykjavíkurflugvöll og Akureyri, og vegna Schengen-krafna verður ekki hægt að taka á móti flugi inn á þessa velli sem búið er að fjárfesta milljónir í. Það er ekki eitt, það er allt í þessu dæmi. Engin yfirsýn, engin stefnumótun. Þetta er alveg eins og í öðrum málum sem við fjöllum um á þinginu, það er eins og þingmenn gleymi því að við erum í 103 þús. ferkílómetra landi og við verðum að huga að innanríkismálum. Þetta snýst ekki bara um að fljúga frá Keflavík. Þannig standa málin. Fólk á höfuðborgarsvæðinu trúir því ekki þegar við erum að segja frá því hvað miðarnir kosta okkur í dag, hvort sem það er til Egilsstaða, Ísafjarðar, Vestmannaeyja, Akureyrar eða á þessa flugvelli sem flogið er á núna. En eins og ég segi, það kom engum á óvart að þetta leiddi til þessa vegna þess að samkeppnin var sett af stað algerlega óheft. Menn sáust ekki fyrir og við stöndum frammi fyrir afleiðingunum.

Staðan er sú að í staðinn fyrir að leggja skatta á innanlandsflug þyrfti að taka jafnvel einhver ár í að styðja og bæta samkeppnisstöðuna, e.t.v. með framlögum úr ríkissjóði til þess að gefa þeim sem standa í rekstrinum tækifæri á að byggja upp eigið fé og koma á samkeppni innan einhvers skynsamlegs ramma þannig að verðlagning á þessum flugleiðum verði eðlileg.

Við verðum líka að horfast í augu við það að við erum sýknt og heilagt aðstöðulega séð og á annan hátt að búa í haginn fyrir þessi ódýru fargjöld frá landinu og til Evrópu. Það er bara staðreynd mála. En þegar kemur að innanlandsfluginu, þá á allt að borga sig, þá eiga menn að éta það sem úti frýs. Þannig er staða mála gagnvart okkur sem búum úti á landi og kemur okkar ekkert á óvart. Þess vegna vildi ég, virðulegi forseti, fagna þessu fram komna frv. og vona að það fái skynsamlega og góða umfjöllun í samgn. en undirstrika enn og aftur að þessir nýju skattar eru bara eitt þeirra mála sem verður að taka fyrir í sambandi við allt innanlandsflugið vegna þeirrar stöðu sem við erum komin í í dag, út af þeirri hörðu samkeppni sem varð, út af því að bæði félögin misstu sitt eigið fé á leiðinni og þurfa uppbyggingu aftur og út af uppbyggingu flugvallanna. Sérstaklega vil ég þó bera fyrir brjósti flugvellina á Egilsstöðum og Akureyri. Og það er alveg óásættanlegt, virðulegi forseti, ef þingið og hæstv. samgrh. sjá ekki til þess að á sama tíma og Schengen-reglurnar taka gildi og farið verður að fljúga á Keflavík eftir þeim aðferðum, að á sama tíma og sama degi verði til aðstaða til að taka á móti slíku flugi á þeim völlum sem við höfum byggt upp til að taka á móti flugi erlendis frá og þá hugsa ég auðvitað fyrst og fremst um Egilsstaðaflugvöll og Akureyri.