Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 14:48:57 (1253)

2000-11-02 14:48:57# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[14:48]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um loftferðir. Ég ætla að leyfa mér að taka þátt í umræðunni og trufla aðeins orðræður hv. þm. Samfylkingarinnar og vinstri grænna sem endurspegluðu mjög rækilega þann djúpstæða skoðanaágreining sem er millum þeirra fyrrum félaga í þessum tveimur stjórnmálaflokkum. En það er svo sem gagnlegt að þetta komi fram sem oftast og skýrast, ekki síst fyrir kjósendur.

Frv. sem hér er til meðferðar er hins vegar flutt af hv. þm. úr Samfylkingunni og ég hef mjög margt við það að athuga og vil gera grein fyrir því.

Í fyrsta lagi finnst mér algerlega fráleitt að setja fram í greinargerð fullyrðingar um afstöðu starfsmanna samgrn. og byggja síðan tillöguflutning á meintri afstöðu embættismanna. Til að fá fram fóður í greinargerðina hefði verið eðlilegast að hv. flm. óskuðu eftir því skriflega hverjar væru tillögur samgrn. um þessa gjaldtöku. En að vitna í ótilgreinda starfsmenn um að fyrirhuguð hækkun sé á flugleiðsögugjöldum, það eru ekki vönduð vinnubrögð og ég vara við því að menn noti þvílíkar aðferðir við undirbúning að málum. Pólitísk stefnumótun er ekki á ábyrgð einstakra embættismanna, hvorki í skattlagningu né öðru og þetta eiga hv. þm. að vita.

Í annan stað vil ég vekja athygli þingheims á því að hér er verið að reyna að skjóta stoðum undir rökstuðning fyrir frv. með því að vekja athygli á kostnaði við farmiða ótilgreindra flugfélaga sem verið er að selja á uppboðsmarkaði sem síðustu sæti væntanlega. Þegar búið er að selja allt er verið að bjóða vildarkjör og ég efast um að hægt sé að byggja á slíkum verðum og bjóða hverjum sem er að nota þau verð sem hér er verið að sýna og bera saman og sýna fram á hve innanlandsflugið sé dýrt. Þetta eru heldur ekki vönduð vinnubrögð og ekki rétt að reyna að slá ryki í augu fólks með því að fara svona með hlutina.

Að öðru leyti um frv. vil ég segja þetta. Það liggur fyrir að í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár á að innheimta 30 millj. í flugleiðsögugjaldið og 15 millj. vegna veðurþjónustu hjá innanlandsfluginu. Það eru engin áform um að hækka þær fjárhæðir. Ástæðan fyrir því að ég taldi eðlilegt að innanlandsflugið greiddi einungis lítinn hluta af þessari þjónustu, af kostnaði við flugleiðsöguna, er að ég tel fullkomlega eðlilegt að flugfélögin hafi nokkra vitneskju um hver þessi kostnaður er, þ.e. að reynt sé að skapa kostnaðarvitund hjá aðilum um það sem ríkissjóður er að leggja til. Ég tel að það sé í fyllsta máta eðlilegt, fyrir utan það að að sjálfsögðu er nauðsynlegt að innheimta kostnað vegna þjónustu eins og veðurþjónustunnar við flugið.

Fullyrðingar um að þetta sé að ríða flugfélögunum að fullu eru náttúrlega gersamlega fráleitar. Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn greiðir farþegi sem flýgur með Fokker til Akureyrar 76 kr. í flugleiðsögugjaldið. Ef hann fer með Dornier er það heldur meira, rúmlega 100 kr. Ég held að það muni væntanlega ekki ráða úrslitum um það hvort viðkomandi fer með flugi að greiða 70--80 kr. á farmiða með Fokkervélinni. Ég held að flugfélögin hafi nóg ráð með að hagræða til þess að ná árangri í rekstri sínum þannig að þetta valdi ekki neinum stórum vandræðum.

Þegar litið er til þess hvaða stefnubreyting hefur orðið hjá stjórnvöldum hvað varðar flugið, þá ætti hv. flm. sem er mikill áhugamaður um ferðir innan lands að hlusta. Það hefur orðið grundvallarstefnubreyting af hálfu stjórnvalda í stuðningi við innanlandsflugið. Ég tel að menn verði að átta sig á því að hagnaður er a.m.k. af rekstri hjá flugfélögunum á tiltekna staði, á aðalflugleiðirnar, þ.e. Akureyri, Ísafjörð, Sauðárkrók, Vestmannaeyjar og Egilsstaði. Og sem betur fer eru þær flugleiðir mikið notaðar og það er verulegur og góður árangur af rekstrinum þar. Á hinn bóginn er og hefur verið halli á flugi á ýmsa aðra staði og ég hef sem samgrh. beitt mér fyrir því að það yrði viðurkennt í raun og að við þyrftum og vildum halda úti flugi á staði eins og frá Akureyri til Þórshafnar og til Vopnafjarðar svo tekið sé dæmi og til Grímseyjar, sömuleiðis frá Reykjavík að Gjögri og milli staða á Vestfjörðum, þ.e. milli Ísafjarðar og Vesturbyggðar yfir veturinn þegar allt er ófært. Þessar leiðir höfum við boðið út með það í huga að til komi ríkisstyrkur til að halda þeim flugleiðum uppi þannig að þetta sé allt saman uppi á borðinu, að veittur sé stuðningur við þessar flugleiðir og flugfélögin að öðru leyti setji það þá væntanlega inn í sín tilboð, en greiði eðlilega hlutdeild í kostnaði eins og við flugleiðsöguna. Þetta liggur alveg á borðinu hvað þetta kostar og flugfélögin geta gert áætlanir sínar út frá þessum staðreyndum öllum. Þess vegna finnst mér alveg af og frá að hv. þm. leggist gegn því að innheimtur sé smáhluti af þeim kostnaði til þess fyrst og fremst að skapa aðhald og kostnaðarvitund svo aðilar viti svo sannarlega hvað þetta kostar allt saman.

Ég vil bara undirstrika það að við leggjum mikla áherslu á að reyna að byggja upp innanlandsflugið, bæði með því að bæta aðstöðu á flugvöllunum og ekki síst í Reykjavík. Það hefði kannski átt að fylgja með í þessari umræðu smástuðningsyfirlýsing við samgrh. í þeirri orrustu sem hann stendur í til að tryggja hagsmuni innanlandsflugsins sem er í miklu meiri hættu ef vinstri meiri hlutinn í höfuðborginni fengi sínu framgengt og sæi til þess að allir innanlandsfarþegar yrðu að fara til Keflavíkur. Hver yrði kostnaðurinn hjá flugfarþegum þá? Það væri miklu fremur ástæða til þess fyrir hv. þm. Samfylkingarinnar að snúa sér að því verki að koma í veg fyrir að innanlandsflugið verði lagt í rúst eins og yrði gert ef vilji Samfylkingarinnar næði fram að ganga hjá höfuðborginni um að hrekja Reykjavíkurflugvallarþjónustuna burtu.