Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 15:59:15 (1269)

2000-11-02 15:59:15# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir það fyrsta vil ég segja að það er ólíku saman að jafna um málflutning Samfylkingarinnar og hins vegar vinstri grænna þegar þeir tala um innanlandsflugið og þá sérstaklega Reykjavíkurflugvöll. Það kom fram hjá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni að hann hefur skilning á mikilvægi uppbyggingar á Reykjavíkurflugvelli á meðan hv. þm. Samfylkingarinnar reyna að gera mig og málflutning minn tortyggilegan þegar ég er að leggja áherslu á að það sé ekki af hinu góða í þágu innanlandsflugsins að leggja af fyrr eða síðar flugvöllinn í Reykjavík.

[16:00]

Hvað varðar Schengen þá er deginum ljósara að auðvitað verðum við að skapa aðstæður til þess að þeir flugvellir sem hv. þm. nefndi geti tekið á móti millilandaflugi. Vel kann að vera að það þurfi að leggja í nokkurn kostnað. En það liggur ekki fyrir. Að sjálfsögðu mun ég fara yfir það mál og leita leiða til þess að þær kröfur sem við höfum undirgengist verði uppfylltar.