Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 16:13:52 (1272)

2000-11-02 16:13:52# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[16:13]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Aðeins í lok þessarar umræðu sem um margt hefur verið athyglisverð vil ég aðeins draga fram vegna þess sem hér hefur verið sagt um stefnu gagnvart innanlandsflugi þau meginatriði sem skipta innanlandsflugið miklu, bæði í lengd og í bráð.

Stefna mín hvað innanlandsflugið varðar er alveg skýr. Í fyrsta lagi legg ég mjög mikla áherslu á að byggja upp flugvelli landsins, bæði í Reykjavík og úti um land þar sem flugsamgöngur eru lykilatriði í þjónustu við íbúana. Þar á ég bæði við mannvirkjagerðina og ekki síður allan öryggisbúnað og aðflugsbúnað sem er forsenda fyrir því að flugfélögin geti með góðu móti sinnt þessari þjónustu.

Í annan stað vil ég undirstrika og leggja áherslu á að við hljótum þegar við lítum til samgöngukerfisins í heild að líta til allsherjaruppbyggingarinnar, þ.e. annars vegar uppbyggingar vegakerfisins og hafnanna, og svo hins vegar flugsins og taka auðvitað tillit til þess að þegar mikil úrbót verður í vegamálum þá megi búast við því að úr innanlandsfluginu dragi á tilteknum leiðum. Þetta eru alger grundvallaratriði í þessu öllu saman og þarf að horfa til.

[16:15]

Ég vil draga fram það sem ég hef vakið athygli á við þessa umræðu, þó það virðist vekja minni athygli þeirra hv. þm. sem standa að þessum frumvarpsflutningi og umræðum sem fyrst og fremst er ætlað að draga athygli frá aðalatriðum málsins, annars vegar þá staðreynd að tilteknar flugleiðir standa undir sér sem betur fer og þar er vaxandi umferð. Það er nauðsynlegt að undirstrika að á undanförnum árum hefur, hvað sem öllu öðru líður, verið vöxtur í innanlandsfluginu. Annars vegar ber að leggja áherslu á að þessar meginleiðir standa undir sér.

Hins vegar hef ég vakið athygli á því að við verðum að tryggja flugsamgöngur við dreifðari byggðir. Þess vegna hef ég staðið fyrir útboði á tilteknum flugleiðum sem ég þarf ekki að tilgreina. Það er mikilvægt skref til að tryggja samgöngur í landinu. Þetta vildi ég að kæmi hér fram ef það hefði farið fram hjá hv. þm., að það er mjög skýr og klár stefna hvað varðar flugið af hálfu samgrn. og ríkisstjórnarinnar. Á hinn bóginn verðum við að sjálfsögðu að taka tillit til þess að fólk nýtir sér vegina og þess vegna hefur farþegum fækkað á sumum flugleiðum. En í það heila hefur orðið aukning í innanlandsfluginu og það er vel.