Fjarskipti

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 16:32:52 (1278)

2000-11-02 16:32:52# 126. lþ. 19.6 fundur 159. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. 1. flm. frv., Lúðvíks Bergvinssonar, er hér verið að gera tillögu um breytingu á lögum sem samþykkt voru í árslok 1999, breytingu á 44. gr. fjarskiptalaga.

44. gr. fjarskiptalaganna er í þremur málsliðum og er fyrsti liðurinn svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Enginn sem starfar við fjarskiptavirki, net eða þjónustu má skjóta undan skeytum, gögnum, myndum eða öðrum merkjum sem afhent eru til fjarskiptaflutnings eða liðsinna öðrum við þess konar athæfi.``

2. málsliður er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Sá sem fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum, táknum eða hlustar á símtöl má ekki skrá neitt slíkt hjá sér eða notfæra sér það á nokkurn hátt. Jafnframt ber honum að tilkynna sendanda að upplýsingar hafi ranglega borist sér. Skylt er að gæta fyllsta trúnaðar í slíkum tilfellum.``

Þetta eru tveir fyrstu málsliðir 44. gr. fjarskiptalaganna. Þarna kemur fram að bannað er með lögum að misnota upplýsingar sem menn komast yfir í fjarskiptakerfinu, hvort sem það er af ásetningi eða af tilviljun, hafi þeir ekki til þess sérstaka heimild. Þarna er líka vísað í símtöl enda ganga verndarákvæði fjarskiptalaga, bæði austan hafs og vestan, út á að koma í veg fyrir slíka misnotkun og koma í veg fyrir símhleranir. Út á það ganga verndarákvæðin.

En ég átti einn málslið 44. gr. ólesinn og hann er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Sá aðili að símtali sem vill hljóðrita símtalið skal í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun sína.``

Hv. flutningsmenn vilja gera breytingu á þessari málsgrein og vilja að það sé skilgreint skýrar og afmarkaðar í lögunum hvenær megi bregða út af þessu. Það er hugmyndin að baki því frv. sem við erum að ræða hér.

Ég vil hins vegar fara aðra leið og ég mun leggja fram frv. í þá veru í næstu viku þar sem lagt verður til að þriðji málsliður 44. gr. laganna verði felldur á brott. Hann er óþarfur og kemur ekki að nokkrum notum, ekki síst þegar menn hafa sett alls kyns varnagla og undantekningar eins og menn hafa reyndar verið að gera, ekki bara í lögum, heldur með yfirlýsingum sem hafa komið frá samgrn. í kjölfar lagasetningarinnar á sínum tíma eftir harða gagnrýni, m.a. frá Blaðamannafélagi Íslands.

Staðreyndin er sú að flestir fréttamenn notfæra sér segulbandstæki sem vinnutæki án þess að þeir ætli að nota þá upptöku til útsendinga eða nota þær gegn þeim sem þeir eru að taka viðtal við. Þetta er vinnutæki og þetta er gert í hagræðingarskyni, þetta gera flestir fréttamenn. Ég hef reynslu af því sjálfur þegar ég var fréttamaður á útvarpinu að nota slíkt tæki í hagræðingarskyni.

Ég hefði hins vegar samkvæmt þeim lögum sem ríkja nú í landinu verið að brjóta landslög ef ég hefði ekki upplýst viðmælanda minn að ég væri að taka samtal okkar upp á segulband.

Að mörgu leyti getur verið ágætt að gera það ekki. Menn setja sig í allt aðrar stellingar ef þeir óttast að það verði notað gegn þeim til hins ýtrasta en yfirleitt er þetta notað í eðlilegu hagræðingarskyni af hálfu fréttamanna. Ekkert er við það að athuga og menn þekkja það flestir sem eiga viðtöl við fréttamenn, hvort sem það er á blöðum eða ljósvakafjölmiðlunum, að mönnum er yfirleitt gerð grein fyrir því í ljósvakaviðtölum hvenær verið er að taka upp við þá samtöl til útsendingar sem er allt annar hlutur.

Ég spyr, ef menn eru að hugsa um þetta sem einhvers konar vörn fyrir einstaklinga sem eru í viðtölum við fjölmiðla, hvort þeim finnist líklegri vörnin vera sú að fá alltaf að vita hvenær verið er að taka upp samtal upp og eiga það þá á hættu, hafi slík yfirlýsing verið gefin, að allt sem þeir segja verði hugsanlega notað, hvort sem er í blaðaviðtali eða í viðtali í útvarpi. Hætt er við því að sagt yrði við þá: Ég var búinn að gefa þér upplýsingar um að þetta væri fréttaviðtal og þú sagðir þetta og ég er búinn óbeint eða beint að fá heimild þína fyrir því að nota þetta. Þú gengur til þessa viðtals vitandi að ég er að taka þig upp á segulband sem fréttamaður.

Þannig er fréttamennska sums staðar í útlöndum, vissulega. Hafi menn náð viðmælanda sínum inn á band telja menn sig geta notað það, jafnvel þótt ambögur eða mistök komi fram í máli viðmælandans, þá eru menn ekki viljugir að leiðrétta málið.

Það er verið að torvelda fréttamönnum að taka upp samtöl í vinnslu sinni og menn ætla að setja það í landslög að þetta sé bannað með öllu.

Ég er ansi hræddur um að menn séu að misskilja tilskipanir sem koma frá Brussel þar sem kveðið er á um bann við símhlerunum sem er allt annar handleggur. Nú ætla menn að setja það í landslög að allar upptökur á samtölum séu bannaðar með lögum ef viðmælandinn veit ekki að verið er að taka hann upp á band.

Mér finnst spurningin snúast um það til hvers upptökurnar eru notaðar og hvernig megi nota þær upptökur. Þá gilda allt önnur lögmál sem eru aldrei tryggð í lögum. Það er tryggt í góðum samskiptum fólks við fjölmiðlana almennt en ekki í landslögum með þessum hætti.

Síðan er það svo að með þeim lögum eins og þau eru núna í gildi væri óheimilt fyrir rannsóknarfréttamann sem hefði komist á snoðir um að hér væri fjársvikamaður frá útlandinu, við þekkjum slíka menn sem hafa samband við fyrirtæki, t.d. frá Nígeríu, það eru margir sem þaðan hafa komið sem staðið hafa í slíkum tilraunum til svikaviðskipta hér á landi, einnig frá Sviss, ég þekki dæmi þess að fréttamönnum sem vildu góma slíka aðila, er samkvæmt lögunum eins og þau eru nú í gildi óheimilt að leita til þeirra með segulbandsupptöku með það í huga að fletta ofan af þeim. Þeim er það bannað nema þeir tilkynni þeim áður að þeir ætli að taka það upp á segulband. Það er bannað. Það er bannað með lögunum eins og þau eru nú í gildi. Þetta er náttúrlega fráleitt og stríðir gegn öllum venjum sem tíðkast í fréttamennsku í lýðræðisríkjum.

Frv. sem hér liggur fyrir hins vegar gengur út á að rýmka möguleika rannsóknarfréttamanna þannig að frv. sem hér er til umræðu er vissulega spor fram á við og vissulega til mikilla bóta. Ég vil taka það mjög skýrt fram. Þetta er tilraun til þess að laga það sem fyrir er.

En ég held að einfaldasta leiðin í því efni sé einfaldlega að nema 3. mgr. 44. gr. brott úr lögunum og eins og ég sagði í upphafi mun ég leggja fram frv. í næstu viku þar sem svo er gert.