Fjarskipti

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 16:43:44 (1279)

2000-11-02 16:43:44# 126. lþ. 19.6 fundur 159. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[16:43]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágæta ræðu um það frv. sem liggur fyrir og sýn hans og hugmyndir sem hann hefur og þá ekki síður lýsingu á þeirri reynslu sem hann er líka öðrum þræði að lýsa frá því hann var fréttamaður.

En til að skýra þetta örlítið er það skoðun flm. okkar að það eigi áfram sem hingað til að vera meginregla að ef menn ætla að hljóðrita samtal láti þeir vita af því. Það er meginreglan. Það er alveg í samræmi við eins og vitnaði til áðan þeirra ákvæða sem eru í stjórnarskránni o.s.frv., það er í samræmi við það sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu sem við erum partur af, hvort sem okkur líkar það betur eða verr og það er í samræmi við það eins og þessi mál hafa þróast annars staðar í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

En í ljósi þessarar meginreglu og í ljósi þeirrar nauðsynjar sem er á því að frá henni séu undantekningar er vitnað til þess sem hér er talið upp í a-, b- og c-lið í því skyni að þessi meginregla sé þó ekki til þess fallin að takmarka starfsemi sem er mjög mikilvæg í samfélaginu. Þá er í fyrsta lagi verið að tala um lögmæta viðskiptahagsmuni því það er einfaldlega orðið þannig á tímum þessara rafrænu viðskiptasamtala o.s.frv. að mjög mikilvægt er að fyrir liggi sönnun um það hvað fór fram. Það skiptir viðskiptalífið mjög miklu máli og því er lagt til að það sé undanþegið. Það er undanþegið m.a. sökum þessarar nauðsynjar og eins því að mönnum má vera kunnugt um að svo sé. Á sama hátt er lögð til undantekning fyrir fréttamenn og í fréttaöflun þeirra. Frv. er til þess fallið að hjálpa fréttamönnum í starfi sínu og hér er á engan hátt verið að gera þeim það upp að þeir séu líklegir til þess að misnota þetta. Undanþáguna er m.a. verið að veita vegna þess að fréttamenn hafa sýnt að þeim er treystandi. C-liður skýrir sig sjálfur.