Almannatryggingar

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 18:00:18 (1293)

2000-11-02 18:00:18# 126. lþ. 19.9 fundur 102. mál: #A almannatryggingar# (búsetuskilyrði örorkutryggingar) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[18:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar sem er mikilvæg réttarbót fyrir þá sem koma til með að njóta hennar. Eins og fram kom í máli 1. flm., Ástu Möller, er ekki um marga einstaklinga að ræða. En hér er um mjög mikilvæg réttindi engu að síður að tefla.

Í almannatryggingalögunum eins og þau eru nú er kveðið á um rétt til örorkulífeyris og þar segir á þá lund að þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi og eru á aldrinum 16--67 ára eigi rétt á örorkulífeyri en þó með því skilyrði að viðkomandi hafi verið búsettur í landinu a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka er óskert er þeir settust hér að.

Í greinargerðinni er vísað í fyrri ákvæði þessara sömu laga, í lögin eins og þau voru 1963, þar sem það skilyrði var fyrir rétti til örorkubóta að viðkomandi hefði haft hér lögheimili í a.m.k. tíu ár eftir 16 ára aldur, eða fimm síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Þar er sem sagt kveðið á um fimm ár í stað þriggja ára eins og í lögunum nú.

Síðan kemur fram að breyting hafi verið gerð á almannatryggingalögunum 1999 og þá er ekki lengur vísað í lögheimili heldur búsetu.

Það kemur fram í samanburði við hin Norðurlöndin, sem er tíundaður í greinargerðinni, að staðan í Noregi er einna líkust því sem gerist hér, a.m.k. samkvæmt þeim breytingum sem hér er verið að tala fyrir. En í Noregi er lágmarksskilyrði laganna búseta þrjú síðustu árin áður en til örorku kom.

En síðan segir í greinargerðnni, með leyfi forseta:

,,Þó getur viðkomandi öðlast rétt til örorkulífeyris eftir ár hafi hann ekki verið lengur en fimm ár utan norska tryggingakerfisins eftir 16 ára aldur. Skilyrðið um þriggja ára búsetu á þó ekki við um þá sem verða öryrkjar fyrir 26 ára aldur ...``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Í Noregi eru skilyrði einna líkust ákvæðum í íslenskri löggjöf, en þó er réttur viðkomandi betri, því að sá sem hefur verið utan norska tryggingakerfisins skemur en fimm ár eða verður öryrki fyrir 26 ára aldur hefur óskertan rétt.``

Nú er á það að líta að þeir einstaklingar sem eru innan Evrópska efnahagssvæðisins flytja réttindi sín milli landa í samræmi við milliríkjasamninga þannig að skilyrðið um þriggja ára búsetu á Íslandi á einvörðungu við um þá sem búa utan þessa svæðis. En eins og hér hefur komið fram er lagt til að þeir skuli eiga rétt til örorkulífeyris sem hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú almanaksár eftir 16 ára aldur, þar af a.m.k. sex mánuðina áður en umsókn er lögð fram. Þarna er sem sagt verið að stytta þennan tíma úr þremur árum í sex mánuði.

Ég tel þetta vera mjög til góðs og mikið framfaraskref og réttarbót fyrir þá sem hlut eiga að máli og styð þetta mjög eindregið.