Almannatryggingar

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 18:14:42 (1295)

2000-11-02 18:14:42# 126. lþ. 19.9 fundur 102. mál: #A almannatryggingar# (búsetuskilyrði örorkutryggingar) frv., Flm. ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[18:14]

Flm. (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að fjalla um nokkur atriði sem kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals. Ég vil byrja á að taka undir það sem kom fram í máli hans varðandi þá þætti sem snúa að endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Almannatryggingalöggjöfin er allt of flókin og ég rakst sérstaklega á það við undirbúning á þessu frv. að það voru endalausir angar hingað og þangað sem þurfti að athuga sem leiddu mann í ákveðnar blindgötur.

[18:15]

Ég er líka sammála því að skoða þarf þennan pakka og skoða þau réttindi sem einstaklingarnir hafa innan almannatryggingakerfisins, bæði hvað varðar slysatryggingar og sjúkratryggingar og varðandi rétt til lífeyris og við þurfum að skoða hvort þau réttindi eigi að skapast í gegnum iðgjöld eins og hv. þm. nefndi, eða hvort þau eigi að skapast í gegnum skattana. En það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi er að réttindin séu skilgreind þannig að fólk geti áttað sig á því hver réttur þess er og hvar réttur þess liggur ekki svo fólk geti metið það hvort það þurfi að tryggja sig sérstaklega með öðru móti. Það hefur t.d. alltaf valdið mér ákveðinni undrun að einstaklingur sem verður veikur er nokkuð vel tryggður en ef hann verður veikur í munninum, þ.e. ef hann þarf á tannlækningum að halda, þarf hann að borga það öðru verði en aðra heilbrigðisþjónustu.

Það hefur líka vakið ákveðnar spurningar af hverju tæknifrjóvgun þarf að borgast með háum upphæðum en ekki einhver önnur þjónusta sem varðar kynheilbrigði.

Það eru því ýmsir þættir sem þarf að skoða í þessu samhengi, hver rétturinn er og hvernig til hans er unnið svo að fólk geti áttað sig á því hver staða þess er varðandi aðrar tryggingar.

Hv. þm. Pétur Blöndal hafði ákveðnar áhyggjur af þeirri styttingu á biðtíma sem kemur fram í frv. Ég er þeirrar skoðunar að biðtíminn sé nauðsynlegur til þess að forðast misnotkun í kerfinu. Biðtíminn hefur verið þrjú ár fyrir öryrkja sem flytjast heim að utan, úr landi utan Evrópska efnahagssvæðisins, hann styttist um tvö og hálft ár við þetta. Einstaklingur sem kemur hingað og hefur ekki verið búsettur hér áður um þriggja ára skeið, eða ekki búsettur frá 16 ára aldri, þarf að bíða þessi þrjú ár. Vissulega gat ég séð að ákveðin hætta væri þarna fyrir hendi, en mér finnst við þurfa samt sem áður að skoða það að þarna eru Íslendingar sem lenda milli stafs og hurðar, eiga mjög erfitt í þessi þrjú ár og við þurfum að skoða það.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að búa eigi til einhverjar sérreglur fyrir Íslendinga í þessu sambandi. Þær hugmyndir komu m.a. fram að það ætti að hafa þetta svona lokað áfram en taka ætti sérstaklega á málefnum Íslendinga. Einhvern veginn truflar það réttlætiskennd mína að það sé gert á þann máta. Þótt fólk sé annarrar þjóðar, ef það kýs að búa hér á landi, þá finnst mér að hafi Íslendingar skapað sér ákveðinn rétt eigi það jafnt við um útlendinga. Kannski er þetta óskaplega mikil góðmennska hjá mér en einhvern veginn er það réttlætiskenndin sem þar hefur þó tekið yfir fram yfir góðmennskuna.

Ég vil jafnframt benda á að þeir útlendingar sem koma til landsins frá Evrópska efnahagssvæðinu hafa þennan rétt. Og það svæði er að stækka, við vitum það. Við getum gert ráð fyrir því að gerðir verði samningar við þau lönd sem fara inn í ESB um gagnkvæman rétt. Þannig að við erum að tala þarna um einstaklinga sem búa þar fyrir utan.

Ég þakka þá umræðu sem hefur orðið um þetta frv. og ég tel að um ákveðið réttlætismál sé að ræða. Hvatinn að frv. var samræður við konu sem hafði lent afskaplega illa í kerfinu og átti mjög erfitt með að fóta sig einmitt vegna allra þeirra þröskulda sem þjóðfélagið hefur sett upp gegn þeim aðstæðum sem konan hafði lent í. Það varð til þess að ég fór að skoða þetta og komst að þeirri niðurstöðu að ástæða væri til að ræða þetta og ástæða væri til að breyta þessu og þá er það þingsins að vega og meta hvort áhættan er of mikil eða hvort hún er ásættanleg.

En ég tek aftur undir það sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan að brýn þörf er á að endurskoða allt almannatryggingakerfið.