Almannatryggingar

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 18:22:19 (1297)

2000-11-02 18:22:19# 126. lþ. 19.9 fundur 102. mál: #A almannatryggingar# (búsetuskilyrði örorkutryggingar) frv., Flm. ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[18:22]

Flm. (Ásta Möller) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er kannski ekki betur að mér en hv. þm. Pétur Blöndal í einmitt þessu. Ég var nú að reyna að fara í huganum yfir það hvort þessi skilyrði væru fyrir hendi, ég bara man það ekki og get í rauninni ekki svarað þessu. En hins vegar verðum við að átta okkur á því að þær þúsundir Pólverja sem eru hér búsettar og hafa verið í lengri eða skemmri tíma, a.m.k. þá þrjú ár, greiða skatta til þjóðfélagsins. Og það má einmitt velta því fyrir sér hvort Pólverjar eigi þá ekki að hafa sama rétt og Íslendingar sem eru búsettir hér á landi til þess að njóta þeirra réttinda sem almannatryggingakerfið veitir þeim.

Mér er vel kunnugt um þær áhyggjur sem komu fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals og ég veit að ýmsir deila þessum áhyggjum með honum. En niðurstaða mín var sem sagt sú að þetta væri breyting sem réttlætanlegt væri að fara fram með.