Bætt staða námsmanna

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 18:33:02 (1301)

2000-11-02 18:33:02# 126. lþ. 19.16 fundur 189. mál: #A bætt staða námsmanna# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[18:33]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég tek undir þau ummæli hv. framsögumanns að menntun sé afskaplega mikilvæg og hún er sennilega ein besta fjárfesting hvers þjóðfélags og að sjálfsögðu á að gera vel við stúdenta.

Hins vegar finnst mér sú tillaga og sú hugmynd sem hv. þm. reifaði sýna einmitt það sem ég hef margoft bent á að menn líta á eina skúffu í öllu velferðarkerfinu en gleyma allri kommóðunni. Nú ætla ég að koma með eitt dæmi.

Herra forseti. Gefum okkur að einstæð móðir með tvö börn undir sjö ára aldri stundi nám við Háskóla Íslands. Hún er með 265 þús. kr. á ári í tekjur, borgar enga skatta. Hún vinnur þetta í mánuðunum júní, júlí og ágúst, um 88 þús. kr. á mánuði. Hún borgar 50 þús. kr. á mánuði í húsaleigu, annaðhvort á stúdentagarði eða annars staðar. Og þá lítur dæmið út eftirfarandi:

Hún fær í lán 66 þús. kr. sjálf, 29 þús. kr. með fyrra barninu eða 30 þús. kr. með hvoru barni. Samtals 126 þús. kr. fær hún í lán á mánuði þá níu mánuði sem Háskóli Íslands starfar. Síðan fær hún 24.750 í húsaleigubætur. Sjálf fær hún 8 þús., fyrsta barnið fær 7 þús. og annað barnið 6 þús. á mánuði og síðan fær hún 15% af leigu umfram 20 þús. kr., allt að 40 þús. kr. eða 3.750. Samtals fær hún 24.750 í húsaleigubætur, skattaðar, og dragast líka frá sem tekjur frá láninu. En svona lítur dæmið út fyrsta árið. Síðan fær hún barnabætur samkvæmt skattalögum, hún hefur litlar tekjur þannig að hún er ekkert skert. Hún fær með fyrra barninu 14.218 og af því að barnið er undir sjö ára aldri fær hún að auki 2.515., 17 þús. kr. með fyrra barninu á mánuði allt árið í kring. Með seinna barninu fær hún eilítið meira, 14.585 og 2.515. Hún fær sem sagt 33.800 kr. með báðum börnunum á mánuði í barnabætur frá skattkerfinu. Svo fær hún mæðralaun frá Tryggingastofnun, 3.891, það er nú ekki mikið. Svo fær hún meðlag frá föður 13.361 með hvoru barni, það er lágmark, hugsanlega fær hún meira ef faðirinn er tekjuhár, samtals 26.722 á mánuði. Svo fær hún í júní til ágúst 88 þús. kr. í laun á mánuði og hún er með í laun og bætur mánuðina september til maí 215 þús. kr. í ráðstöfun. Það lækkar þegar hún er að vinna --- því þá fær hún ekki lánið --- niður í 177 þús. kr. í ráðstöfun mánuðina júní til september, í þrjá mánuði.

Ef litið er á allt árið í heild þá er þessi einstæða móðir með tvö börn með 206 þús. kr. í ráðstöfun alla mánuði ársins. Hún þarf að hafa hátt yfir 300 þús. kr. á mánuði í tekjur á almennum markaði til að borga af því skatta og fá skertar barnabætur o.s.frv. Ég skil því ekki þetta mál. Af þeim 206 þús. kr. sem hún er með í ráðstöfun á mánuði allt árið um kring borgar hún enga skatta, hún er langt undir skattleysismörkum, og af þeim eru 46% lán eða 94 þús. kr. á mánuði allt árið um kring, allt hitt eru bætur, meðlög og laun, 20 þús. kr. á mánuði. Svo nýtur hún auk þess niðurgreiðslu og forgangs á barnaheimili sem námsmaður og borgar þar miklu lægra gjald en annað fólk, 10 þús. kr. í staðinn fyrir 20. Svo getur hún, af því að hún er með tvö börn fengið húsnæði í stúdentagörðum sem hafa verið reistir með niðurgreiddu fé, 1%, þó að leigan sé furðu há miðað við það, mér skilst að leigan í stúdentagörðum fari upp í 50 þúsund krónur þrátt fyrir það að þeir séu reistir með niðurgreiddu lánsfé. Það er athugunarvert í sjálfu sér.

Spurning mín er sú: Er það virkilega þannig að launþegar sem margir hverjir eru með miklu lægri tekjur þurfa að borga til lánasjóðsins, því að þau lán eru niðurgreidd, stórlega niðurgreidd, helmingurinn er gefinn af lánum frá lánasjóðnum miðað við markaðsvexti og þeir falla niður ef maðurinn verður öryrki eða fellur frá. Er það virkilega þannig að launþegar í þessu landi, sem margir hverjir eru með 150 þús. á mánuði og borga af því í skatta, fara niður í svona 120, þurfi að horfa upp á það að þeir séu núna að borga 206 þús. kr. til einstæðrar móður með tvö börn á mánuði, hún fái 206 þús. kr. í ráðstöfun, er þetta ekki of mikill munur?

Ekki er nóg með það heldur gengur tillagan út á það að þetta verði stórlega aukið. Ég ætla að biðja hv. þm. að líta á alla kommóðuna en ekki einstakar skúffur í hvert skipti.