Greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 10:37:53 (1311)

2000-11-03 10:37:53# 126. lþ. 20.94 fundur 92#B greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[10:37]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Reykv. beindi til mín fjórum efnismiklum spurningum sem ég fagna að fá að svara hér.

Fyrst vil ég fá að taka fram eftirfarandi:

Það hefur staðið til að gera grundvallarbreytingar á endurgreiðslukerfi Tryggingastofnunar vegna lyfja. Því var slegið á frest í ár m.a. vegna þess að við vildum sjá hvernig málin þróuðust í Danmörku en þeir tóku upp nýtt kerfi núna í mars sl. Tryggingastofnun var síðan falið að útfæra það hér sem kallað hefur verið danska kerfið. Sú útfærsla hefur ekki ratað á borð ráðherra enn þó svo umfjöllun hafi fari fram um það opinberlega og ég get heldur ekkert sagt um það hér hvort sú útfærsla sem fyrir liggur hjá Tryggingastofnun þá og þegar verði ofan á fyrr en ég hef farið yfir það með ráðuneytinu.

Áður en ég svara fyrstu spurningunni vil ég líka útskýra hugmyndafræðina sem hið svokallaða danska kerfi hvílir á. Það byggir á að draga úr kostnaði þeirra sem nota lyf að staðaldri, eru langveikir og nota mikið af lyfjum. En á móti er greiðsluhlutur þeirra sem nota lyf endrum og sinnum og eru frískir að öðru leyti, aukinn. Í velferðarríkjum Skandínavíu er þetta fyrirkomulag talið réttlátara.

Fyrsta svarið er þetta: Það hafa engar ákvarðanir verið teknar um að fella alveg niður endurgreiðslur á lyfjum sem hv. þm. spurði um og ég endurtek það sem ég hef sagt á öðrum vettvangi, þ.e. krónískir sjúklingar sem nota lífsnauðsynleg lyf að staðaldri þurfa ekki að hafa áhyggjur af breyttri greiðsluþátttöku. Í þessu sambandi er rétt að taka fram til að forðast misskilning að Danir taka ekki þátt í greiðslu á öllum lyfjum og Svíar eru nú að tína út úr sínu kerfi fjölmörg lyf sem notendur hafa fengið greidd en verða í framtíðinni að greiða að fullu.

Annað svarið er svona: Almennar niðurgreiðslur vegna lyfja lækka ekki hlutfallslega þótt við tökum upp nýtt greiðslufyrirkomulag. Kerfið er ekki sett upp til að spara heldur til að draga úr sjálfvirkum vexti lyfjaútgjalda og gera kerfið sanngjarnara. Ég sé engin rök fyrir því að þetta hlutfall þurfi að breytast þótt endurgreiðslukerfi breytist.

Af því að hér er spurt um greiðsluhlut þeirra sem nota lyf þá er rétt að fram komi að hann hefur sáralítið breyst þótt breytingar hafi verið gerðar á greiðsluþátttökunni. Lyfjaliður vísitölu neysluverðs eins og Hagstofan reiknaði hann út hefur til að mynda lækkað hlutfallslega frá áramótum þrátt fyrir mikla umræðu um annað og það vil ég gjarnan sýna ykkur á línuriti á eftir.

Svar þrjú er þetta: Ég tel brýnt að jafnan liggi fyrir sem nákvæmastar upplýsingar um hvernig hinir ýmsu þjóðfélagshópar nýta heilbrigðisþjónustuna. Ég geri mér grein fyrir að aðgengi ræðst af efnahag og einmitt þess vegna hafa allar breytingar á endurgreiðslureglugerðum lyfja tekið mið af að halda niðri kostnaði þeirra sem við teljum viðkvæma í þessu sambandi.

Ég lýsti þeirri skoðun minni á ársfundi Tryggingastofnunar ekki alls fyrir löngu að ég teldi afar brýnt að efla rannsóknir á þessu sviði svo heilbrigðisyfirvöld hefðu jafnan haldgóðar upplýsingar í þessum efnum.

Varðandi síðasta lið fyrirspurnarinnar þá hefur það verið meginatriði í starfi mínu sem heilbrrh. að stuðla að jöfnuði og að allir hefðu jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustunni íslensku.

Virðulegi forseti. Ég tel mig þegar hafa svarað fjórðu spurningunni með því að gera grein fyrir grundvallaratriði hins svo kallaða danska kerfis, þ.e. að flytja niðurgreiðslurnar til þeirra sem bera þyngstan kostnað vegna sjúkdóma sinna en auka hlut þeirra sem eru frískir. Almennt er ekki fyrirhugað að auka hlut þeirra sem kaupa mikið af lyfjum.

Ég tel rétt að það komi sérstaklega fram að danska og íslenska heilbrigðiskerfið og lyfjakerfið eru ekki þau sömu. Því þarf að taka mið af íslenska kerfinu og ég vænti þess að tillögur frá Tryggingastofnun liggi fyrir í vetur þar um.