Greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 10:45:12 (1313)

2000-11-03 10:45:12# 126. lþ. 20.94 fundur 92#B greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[10:45]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Lyfjakostnaður mun að óbreyttu aukast um 12% milli áranna 2000 og 2001. Að koma böndum yfir síaukinn lyfjakostnað ár frá ári er eins og að reyna að temja baldinn fola. Vissulega eru sífellt að koma fram á sjónarsviðið ný og betri lyf sem geta læknað eða linað sjúkdóma sem herja á fólk og vissulega viljum við að Íslendingar njóti tækni- og vísindaframfara í þróun lyfja. Stjórnmálamönnum og heilbrigðisyfirvöldum ber hins vegar að leita bestu leiða til að nýta sem best það fjármagn sem er til lyfjamála á hverjum tíma og um leið að leita leiða til að stemma stigu við aukningu á þessu fjármagni. Að leiðarljósi verður að hafa að það kerfi sem skiptir fjármagninu sé réttlátt, það mismuni ekki sjúklingahópum og um leið hvetji það til varfærni í nýtingu lyfja og spyrni gegn sóun.

Við erum ekki ein um það að standa frammi fyrir því verkefni að halda niðri lyfjakostnaði. Aðrar þjóðir standa þar í sömu sporum.

Að undanförnu hafa heilbrigðisyfirvöld haft til skoðunar kerfi sem upprunnið er í Danmörku með það að markmiði að nýta grunnhugmynd þess til notkunar hér á landi vegna lyfseðilsskyldra lyfja. Grunnhugmyndin byggist á því að þeir sem þurfa að lifa við langvinna sjúkdóma hvers eðlis sem þeir eru fái sambærilega fyrirgreiðslu kerfisins fyrir kostnaðarþátttöku í lyfjameðferð. Ég hef grun um að svo sé ekki í dag þegar allir kostnaðarþættir varðandi meðferð eru teknir saman.

Í hinu nýja kerfi yrði reynt að tryggja að þeir sem þurfa á stöðugri lyfjagjöf að halda vegna langvinnra sjúkdóma beri aðeins takmarkaðan kostnað vegna þeirra. Þeir sem á hinn bóginn þurfa á tímabundinni lyfjagjöf að halda vegna tiltekins sjúkdóms geti hins vegar vænst þess að bera aukinn kostnað upp að vissu marki. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að finna jafnvægi milli þess að fólk fái nauðsynleg lyf án þess að það standi frammi fyrir óeðlilegum útgjöldum vegna þess og hins að útgjöld ríkisins vegna þessa málaflokks séu innan skynsamlegra marka. Þetta er stöðugt og óendanlegt verkefni heilbrigðisyfirvalda.