Greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 10:54:45 (1318)

2000-11-03 10:54:45# 126. lþ. 20.94 fundur 92#B greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[10:54]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er ekki nýtt að verið sé að reyna að ná utan um lyfjakostnaðinn í landinu. Allir heilbrigðisráðherrar hafa haft þetta mikla verkefni með höndum á síðustu árum. Það er einfaldlega þannig að lyfjakostnaður í landinu hefur smám saman verið að vaxa og margar eðlilegar skýringar eru á því. Á markaðinn koma ný og dýrari lyf sem leysa önnur af hólmi og oft er það þannig að einmitt ný lyf gera það að verkum að innlögnum sjúklinga fækkar, þær styttast o.s.frv. Það er því út af fyrir sig ekki alltaf óeðlilegt að lyfjakostnaðurinn vaxi.

En engu að síður er það nauðsynlegt verkefni á hverjum tíma að reyna að halda utan um lyfjakostnaðinn í ljósi þess að um gríðarlega miklar upphæðir er að ræða. Á síðasta ári greiddi Tryggingastofnun ríkisins um 4,7 milljarða kr. vegna lyfjakostnaðar og jókst sá kostnaður um 700--800 millj. kr. milli ára. Það er því ljóst mál að sá heilbrrh. sem ekki reyndi að ná utan um þennan lyfjakostnað væri auðvitað ekki vanda sínum vaxinn og hæstv. heilbrrh. er auðvitað að reyna að glíma við heilmikið og risavaxið verkefni sem líka er viðkvæmt.

Þegar við skoðum þessi mál í einhverju samhengi liggur það fyrir eins og kom fram í máli hæstv. heilbrrh. að hlutur lyfja í heildarvísitölunni hefur síst verið að aukast á undanförnum árum og raunar lækkað það sem af er þessu ári þegar skoðaður er hlutur sjúklingsins í þessu samhengi. Og ef við skoðum það jafnframt líka þá hefur hlutfall sjúklinga verið nær óbreytt allan þennan síðasta áratug þó að auðvitað séu innbyrðis breytingar á milli ýmissa lyfja og lyfjaflokka.

Hið nýja fyrirkomulag sem hæstv. heilbrrh. var hér að nefna felur í sér, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að reyna að nýta þá fjármuni sem við notum núna til þess að greiða niður lyfjakostnað þannig að það komi sem mest og best að notum fyrir þá sem þurfa helst á því að halda. Ég trúi því ekki að neinn geti verið á móti því né trúi ég því að nokkur hv. þm. sé andsnúinn þeirri viðleitni hæstv. heilbrrh. að halda aftur af lyfjakostnaðinum og hækkun hans í landinu.