Greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 10:57:01 (1319)

2000-11-03 10:57:01# 126. lþ. 20.94 fundur 92#B greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[10:57]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Lækkun ríkisútgjalda hjá þessari ríkisstjórn þýðir að dregið úr samneyslu og kostnaði er velt yfir á heimili eða í þessu tilfelli yfir á sjúklinga. Að taka upp danska fyrirkomulagið á niðurgreiðslum almannatrygginga byggist á að flytja greiðsluþátttöku ríkisins frá einstaklingum sem nota lítil lyf yfir til þeirra sem þurfa á meiri og dýrari lyfjum að halda sem þýðir á mæltu máli að spara á milljarð með því að hækka almennt útgjöld fjölskyldna til lyfjakaupa, minna til þeirra sem nota dýr og mikil lyf. Enginn verður tekinn út úr, enginn mun fá ókeypis lyf. Sjúklingar greiða niður lyf fyrir aðra sem þurfa meira á þeim að halda.

Þetta er hinn einfaldi sannleikur í því sem við erum að ræða hér. Með þessu móti á að sækja milljarð í vasa almennings til viðbótar við það sem ríkið hefur þegar sparað á umliðnum missirum í kostnaði þessa fólks með lækkun trygginga og örorkubóta, með lækkun barnabóta, með lækkun vaxtabóta og nú á að hækka útsvar til viðbótar á sama hópinn og verið er að leggja á aukinn lyfjakostnað með þessari aðferð. Þá hlýt ég að spyrja: Hefur hæstv. heilbrrh. lagt það til í ríkisstjórninni að skoðað verði hvernig alhliða sparnaðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hitta ákveðna þjóðfélagshópa fyrir þannig að við vitum á hverjum þessar aðgerðir bitna samtals? Þegar hæstv. ráðherra talar um að Danir og Svíar fari þessa leið þá bendi ég á að þar er allt annað samfélagsmunstur, sterkara öryggisnet, meira veitt til fjölskyldna, barna og félagsmála, betur tryggt að enginn búi við fátækt.