Greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 10:59:10 (1320)

2000-11-03 10:59:10# 126. lþ. 20.94 fundur 92#B greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[10:59]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hef fyrir framan mig töflu Þjóðhagsstofnunar sem sýnir að útgjöld heimilanna vegna lyfjakostnaðar hefur aukist sl. tíu ár hvort sem litið er til þeirra sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eða í krónum talið og munar þar verulega sem sýnir, hvað sem ráðherrann segir, að þátttaka sjúklinga og útgjöld heimilanna hafa vaxið á tíma góðæris meðan minni hlutdeild sjúklinganna var þegar við vorum í ríkisstjórn á tímum niðursveiflu.

Hæstv. ráðherra segir að hún sé að bíða eftir reynslunni af danska kerfinu þegar ráðherra ætlar að fara í grundvallarbreytingar á niðurgreiðslukerfinu á lyfjum. Ég hef fyrir framan mig minnisblað sem segir að það sé talið að kerfi Dana uppfylli ekki það skilyrði að enginn þurfi að hverfa frá lækningameðferð vegna efnahags. Þetta er kerfið sem hæstv. ráðherra er að láta skoða í ráðuneyti sínu sem er þannig að fólk þarf að hverfa frá lækningameðferð og kaupum á lyfjum vegna fátæktar.

Ég held að ráðherrann ætti að athuga vel sinn gang. Það hefur ítrekað komið fram í góðærinu að fólk hefur ekki getað leyst út lyfin sín vegna þeirra hækkana sem sífellt eru að dynja yfir frá þessari ríkisstjórn, síðast á miðju þessu ári um 37%. Hér kemur fram t.d. í ágústmánuði að hjartalyf hafi í sumum tilvikum hækkað um 80% á einu ári. Hjá Landssamtökum hjartasjúklinga kemur fram að hækkunin sé svo mikil að sumir sjúklingar sjái sér ekki fært að leysa lyfin sín út. Og mér finnst ráðherrann þurfi að vera afdráttarlausari í máli sínu en hún var áðan og segja skýrt og skorinort að ekki komi til greina að hækka þátttöku sjúklinga sem eru með langvinna sjúkdóma og að ekki standi til að auka greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði. En mér fannst ráðherrann ýja að því að það stæði ekki til, ekki hjá þeim sjúklingum sem væru með langvinna sjúkdóma en hjá öðrum stæði það til. Er það svo? Stendur til að hækka greiðsluþátttöku sjúklinga almennt í lyfjakostnaði þó undan eigi að skilja þá sem eru með langvinna sjúkdóma?