Námsmatsstofnun

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:25:30 (1327)

2000-11-03 11:25:30# 126. lþ. 20.10 fundur 176. mál: #A Námsmatsstofnun# (heildarlög) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:25]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þessa fyrirspurn um 4. gr. þá finnst okkur nauðsynlegt að hafa slíka heimild í lögunum miðað við fjárreiðulög og aðrar slíkar heimildir sem menn hafa almennt í ríkisrekstrinum. Þarna er m.a. verið að huga að því ef menn ætla að fara út í prófabankagerð eða kerfisbreytingar sem leiða af aukinni notkun tölvutækninnar þannig að ekki sé verið á þessum stað endilega að byggja upp allan þann búnað sem þarf heldur sé hægt að leita til annarra aðila sem eru sérhæfðir í að gæta fyllsta öryggis. Það eru öflugir aðilar hér sem sinna slíku. Það eru slík atriði sem við erum að velta fyrir okkur.

Ég fagna því að hv. þm. er sammála mér um þá verkaskiptingu sem þarna er mælt fyrir um. Varðandi fjárveitingarnar þá er það svo að meginfé hér á landi sem kemur til rannsókna er samkeppnisfé og við erum þá að fækka samkeppnisaðilum með því að skilgreina þetta upp á nýtt og gefa, að mínu mati, skólunum færi á að láta meira að sér kveða og sinna sínum verkefnum með þeim hætti.

Ég er líka sammála hv. þm. um það, og hefur komið fram í öllum greinargerðum sem menn senda frá sér þegar þeir birta niðurstöður í samræmdum prófum, að þau eru ekki eina mælistikan sem á að nota. Mats- og eftirlitsdeild menntmrn. hefur unnið að því að búa til fleiri mælistikur. Ég hef lagt fram skýrslur á Alþingi bæði um framhaldsskólastigið og grunnskólastigið og þar sjá menn hvaða mælistikur aðrar er sjálfsagt að líta til og vonandi tekst okkur að þróa það líka vel þannig að hægt sé að beita þeim til þess að veita upplýsingar um fleira en niðurstöður á prófum.