Blindrabókasafn Íslands

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:28:10 (1329)

2000-11-03 11:28:10# 126. lþ. 20.11 fundur 177. mál: #A Blindrabókasafn Íslands# (verkefni og stjórn) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:28]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt frv. til laga um breyting á lögum um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982, með síðari breytingum.

Í frv. eru lagðar til breytingar á verkefnum og stjórn Blindrabókasafns Íslands og stefnt að því að starfsemi Blindrabókasafnsins taki til miðlunar hugverka til tiltekinna hópa án tillits til þeirrar tækni sem notuð er til að koma verkunum á framfæri. Frv. gerir ráð fyrir að safnið þjóni öllum sem eru lesfatlaðir og noti þá tækni sem er til á hverjum tíma til að koma hugverkum á framfæri við þá.

Meginbreytingarnar samkvæmt frv. þessu eru eftirfarandi: Lagt er til að námsbókadeild Blindrabókasafns Íslands þjóni einnig grunnskólanemendum. Reynsla, tækni og kunnátta eru til staðar á blindrabókasafni til þess að framleiða efni fyrir blinda og sjónskerta. Þar af leiðandi hefur safnið tekið að sér að framleiða einnig efni fyrir grunnskólanemendur að beiðni Námsgagnastofnunar enda hafa kröfur um gæði námsefnis aukist og verða þeir að fá jafngóða þjónustu og aðrir.

Í öðru lagi miðar frv. að því að tryggja að þjónusta Blindrabókasafnsins geti einnig nýst fötluðum, veikum og öldruðum sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt auk blindra og sjónskertra. Með því er verið að laga starfsemi safnsins að nútímanum og raunverulegu umhverfi.

Enn fremur er opnað fyrir möguleika á samstarfi við aðra hópa en Blindrafélagið, t.d. félög aldraðra og sjúkra.

Í þriðja lagi miðar frv. að því að breyta stjórnarfyrirkomulagi Blindrabókasafns Íslands til samræmis við almennar reglur þannig að starf forstöðumannsins verði auglýst með almennum hætti í stað þess sem nú er kveðið á um í lögum að ráðherra skipi einn deildarstjóranna forstöðumann stofnunarinnar.

Herra forseti. Þetta frv. lætur í sjálfu sér ekki mikið yfir sér en snertir ákaflega mikilvæga þætti og snertir það að menn eru að nýta sér þá góðu reynslu sem fengist hefur af Blindrabókasafni Íslands undanfarin ár til þess að sækja fram á nýjum sviðum og veita aukna þjónustu. Menntmrn. hefur beitt sér fyrir því á undanförnum missirum að gera ýmsar athuganir t.d. varðandi lesblindu og stöðu lesblindra nemenda í skólum og er núna að hefja á næstu dögum samvinnuverkefni um lesskimun allra sex ára barna í landinu til þess að átta sig betur á þessum vanda. En þjónustan við þessa nemendur byggist ekki síst á því að til sé efni sem er þannig úr garði gert að þessir nemendur geti nýtt sér það í skólastarfi. Blindrabókasafnið hefur sinnt efri skólastigunum, framhaldsskólanum og einnig háskólastiginu, og hér er gert ráð fyrir því að það fái nú heimild til þess að sinna einnig grunnskólastiginu. Ég tel að með því sé verið að stíga mikilvægt skref til þess að auðvelda nemendum á því skólastigi að nýta sér þá miklu þekkingu og reynslu sem Blindrabókasafnið býr yfir og hefur sinnt með miklum og góðum árangri á undanförnum árum.

Ég legg til að frv. verði sent til hv. menntmn. að lokinni þessari umræðu.