Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 14:07:49 (1346)

2000-11-03 14:07:49# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Gísli S. Einarsson.

Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fram fari endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála í landinu. Nefnd sem í eigi sæti fulltrúar allra þingflokka meti reynslu af núverandi fyrirkomulagi og geri tillögur til Alþingis um nýskipan á þessu sviði.``

Staðhæft hefur verið að rafmagnseftirliti sé mjög ábótavant í landinu í kjölfar þess að horfið var frá opinberu eftirliti með háspennu- og lágspennuvirkjum, þ.e. dreifikerfum rafveitna og neysluveitum til hins almenna notanda. Þess í stað var tekin upp takmörkuð úrtaksskoðun á vegum einkaaðila undir umsjón Löggildingarstofu.

Við fengum staðfestingu á þessari gagnrýni í fjölmiðlum núna nýlega. Þannig var greint frá því í útvarpsfréttum 28. okt. og í sjónvarpi 30. okt. að frágangi á raflögnum og rafbúnaði í hesthúsum landsins væri ábótavant í 98% tilvika. Þetta kom fram í úttekt sem Löggildingarstofan gerði í rúmlega 100 hesthúsum vítt og breitt um landið. En í 75% tilfella voru tenglar í ólagi og 70% lampa. Aðeins tveir af hundraði höfðu tölvuskápinn í lagi. Þetta er aðeins eitt dæmi.

Það hefur verið haft eftir formanni Bændasamtakanna að víða í sveitum ríki ófremdarástand á þessu sviði. Það hefur verið staðhæft að í sumarbústaðahverfum t.d. sé eftirliti mjög ábótavant, að ógleymdum venjulegum íbúðum sem aðeins sæta úrtaksskoðun.

En breytingin sem gerð var á kerfinu --- ég mun halda áfram þegar þessum fundi lýkur --- breytingin sem gerð var á kerfinu er í grófum dráttum sú að hér áður fyrr önnuðust opinberir aðilar eftirlit með rafmagnslögnum og þá var sá háttur hafður á að hver einasta veita sem kölluð er var skoðuð. Hver einasta íbúð var skoðuð. Hugmyndin var sú að það ætti við um allt húsnæði þar sem rafmagn væri nýtt.

Frá þessu fyrirkomulagi var síðan horfið og hugmyndafræðin að baki breytingunum er sú að það beri að draga úr miðstýrðu eftirliti á öllum sviðum í þjóðfélaginu og það eigi að reyna að innræta þeim sem framkvæmdina annast það hugarfar og þau vinnubrögð að hann hafi eftirlit með sjálfum sér nánast, Löggildingarstofa setji almennar reglur þannig að verktakinn viti á hvaða forsendum hann eigi að inna sitt verk af hendi og síðan til að tryggja að hann geri það, sé gerð úrtaksskoðun, þ.e. að hver einasti verktaki megi búast við því að hans verk verði tekið til skoðunar og það sé framkvæmt undir eftirliti Löggildingarstofu þótt einkaaðilum sé falið að annast framkvæmdina.

Þetta er hugsunin og hún hljómar ágætlega. En hún gengur einfaldlega ekki upp eða hefur ekki gengið upp að mati margra þeirra sem koma að þessum málum.

Þetta kerfi hefur reyndar verið gagnrýnt á mörgum forsendum. Menn hafa bent á að það er byggðafjandsamlegt. Fyrirtækin sem annast þessar úrtaksskoðanir eru staðsett á suðvesturhorninu í báðum tilvikum. Ég held þau séu ekki fleiri en tvö sem sinna þessu verki núna. Áður fyrr fór þetta eftirlit fram víðs vegar um landið af fólki sem þar var búsett og staðsett. Ég held þó að í einu tilviki sé einn starfsmaður annars fyrirtækisins sem sinnir þessu núna staðsettur utan Reykjavíkursvæðisins, á Austurlandi. En ég held að sú gagnrýni eigi rétt á sér að breytingin sem gerð var á kerfinu hafi fært þetta eftirlit, það sem eftir er af því, hingað til suðvesturhornsins.

Sumarið 1999 var skipuð þriggja manna nefnd. Þáverandi hæstv. iðnrh. Finnur Ingólfsson skipaði hana til þess að kanna þessa gagnrýni. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni m.a. vegna þess að ekki var samstaða um að leita upplýsinga sem allir nefndarmenn teldu fullnægjandi. Fram kom í minnihlutaálitinu að ekki hefði verið farið að óskum um að hlýða á mál fjölmargra aðila sem höfðu sett fram gagnrýni og vildu koma henni á framfæri við nefndina. Þetta varð til þess að nefndin klofnaði.

Í ljósi þessa ákváðu flutningsmenn þáltill. að gangast fyrir könnun á viðhorfum til rafmagnsöryggismála í landinu og voru send bréf til löggiltra rafverktaka. Það var einfaldlega farið í skrá yfir alla rafverktaka á landinu sem var að finna á vefnum. Sent var til rafveitna, tryggingafyrirtækja og aðila sem sinna brunavörnum. Um 600 aðilar voru spurðir álits og fengust svör frá 200 eða um það bil þriðjungi þeirra sem spurðir voru. Reynt var að haga þessu þannig að sem gleggst svör fengjust og sem óhlutdrægast væri gengið að þessu verki. Það var reynt að tryggja að menn ynnu þetta á óhlutdrægan hátt.

[14:15]

Á könnunarblaði því sem sent var út var spurt, með leyfi forseta:

,,Telur þú núverandi ástand rafmagnsöryggismála viðunandi?``

Menn krossa síðan í reiti.

,,Telur þú að öryggi almennings og raforkuvirkja sé vel fyrir komið með úrtaksskoðunum?``

Síðan krossa menn já eða nei.

,,Hvert telur þú vera það fyrirkomulag sem tryggir best öryggi raforkuvirkja og almennings og besta þjónustu rafmagnseftirlits?``

Síðan eru nokkrir valkostir gefnir. Fyrirkomulag eins og nú er, þ.e. einkareknar skoðunarstofur, eins og áður var þegar Rafmagnseftirlit ríkisins og rafveitur fóru með eftirlitið, nýtt fyrirkomulag, t.d. eitt fyrirtæki á vegum ríkisins með aðsetur starfsmanna á hinum ýmsu landsvæðum, dreifing starfsmanna líkt og áður var. Í fjórða lagi er boðið upp á að merkja við þann valkost að brydda upp á einhverju öðru og beðið er um lýsingu á því í stuttu máli.

Síðan er spurt hvort menn telji að aflað hafi verið nægra upplýsinga um raunverulega stöðu rafmagnsöryggismála eftir að breyting var gerð á rafmagnseftirliti í landinu.

Spurt er hvort eftirlit með ástandi raffanga á markaði sé í lagi að mati þessara aðila:

,,Ef þú telur að svo sé ekki, hvernig er því þá best fyrir komið:

a) í höndum þess sem fer með eftirlit raforkuvirkja,

b) framkvæmt af einkareknum skoðunarstofum,

c) annað?``

Þetta eru þær spurningar sem menn voru beðnir að svara í þessari könnun. Helstu niðurstöður könnunarinnar voru:

Í fyrsta lagi þær að aðeins einn af hverjum fimm sem svöruðu telja núverandi ástand rafmagnsöryggismála viðunandi, aðeins einn af hverjum fimm. Rúmlega þrír fjórðu, 76,5% telja hins vegar núverandi ástand rafmagnsöryggismála óviðunandi.

Í öðru lagi. 78% telja að af hálfu opinberra aðila hafi ekki nægilega verið kannað ástand rafmagnsöryggismála eftir að breytingar voru gerðar á eftirlitskerfinu.

82,5% þeirra sem svara telja að eftirlitskerfinu beri að breyta, þar af vilja 38% hverfa til fyrra fyrirkomulags en 44,5% vilja nýtt eftirlitskerfi þar sem til greina kæmi nýtt fyrirtæki á vegum hins opinbera með dreifingu starfsmanna um land allt.

Í fjórða lagi var spurt um markaðseftirlit raffanga, eins og ég gat um áðan, og töldu 59% svarenda því vera ábótavant. Aðeins 7,5% töldu að einkareknar skoðunarstofur ættu að annast þetta eftirlit. Hins vegar vildi um helmingur að sömu aðilar og sjá um eftirlit raforkuvirkja sinni eftirliti raffanga.

Flutningsmenn þessarar þáltill. telja afar mikilvægt að sátt náist um rafmagnseftirlit í landinu og að ýtrustu kröfur verði gerðar um öryggi. Þess vegna er lagt til að Alþingi skipi nefnd með fulltrúum allra þingflokka til þess að safna fullnægjandi upplýsingum um stöðu þessara mála, kanna þá gagnrýni sem fram hefur komið á núverandi skipan mála og gera tillögur til Alþingis um nýskipan sem sátt geti orðið um. Í þessum anda berum við þessa þáltill. fram og vonumst að sjálfsögðu til þess að hún nái fram að ganga.

Ef menn telja þessa gagnrýni sem við höfum sett fram með þátttöku alls þess fjölda einstaklinga sem hefur komið gagnrýni sinni á framfæri í gegnum þessa könnun sem við höfum gengist fyrir, ég og hv. þm. Gísli S. Einarsson, ekki á rökum reista og telja sinn málsstað mjög góðan og að þessi mál séu í mjög góðu lagi, er þá eitthvað að óttast? Er þá eitthvað að óttast að slík athugun fari fram til þess að koma til móts við sjónarmið okkar sem teljum þessi mál ekki vera í góðu lagi og sem teljum að rafmagnsöryggi í landinu sé ábótavant?

Við væntum þess að hæstv. ráðherra taki þessi sjónarmið og þessar óskir okkar til greina og við teldum það hið besta mál ef hann hefði forgöngu um að málið fengi skjóta og jákvæða afgreiðslu hér á þinginu þannig að fulltrúar allra þingflokka geti komið að þessari vinnu.