Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:06:54 (1362)

2000-11-03 15:06:54# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Svona held ég menn hafi oft talað í Sovétríkjunum gömlu. Kerfið er gott. Síðan lýstu menn kerfinu og hvernig það átti að vinna og sögðu: Þarna sjáið þið, þetta er gott kerfi sem við búum við.

Við bendum hins vegar á að fjölmargir aðilar sem koma að þessu kerfi telja því mjög ábótavant. Við leggjum til að skipuð verði nefnd sem gangi úr skugga um hvað er hið sanna og rétta í því máli. Hv. þm. sagði að við byggjum við opinbert eftirlitskerfi og vísar þar í Löggildingarstofu. Í þeim skilningi er það vissulega rétt. Engu að síður eru það einkaaðilar, tvær skoðunarstofur sem gera úrtaksskoðanir þannig að það er búið að einkavæða þetta eftirlit.

Hv. þm. segir að við þurfum að hyggja að tvennu: Í fyrsta lagi hljótum við að horfa til öryggisins, að stefnt sé að því að auka og bæta öryggið. Í annan stað þurfum við að líta á kostnaðinn. Við þurfum að draga úr þessum kostnaði. Hv. þm. vísaði þar einkum til raffangaprófana. En nú vil ég beina sjónum hv. þm. að öðru, að veitum almennt, að íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði og spyrja: Hvað ef það kemur á daginn að tvennt hafi gerst, að örygginu hafi hrakað við það að aðeins úrtak sé tekið til skoðunar, aðeins um 20% eða þar innan við í stað þess að allar veitur séu skoðaðar, og að tilkostnaðurinn við skoðanir hafi aukist? Þó menn hafi náð tilkostnaðinum niður í heild sinni þá er skoðunin nú miklu dýrari en hún var áður eins og ágætlega var rakið í máli hv. þm. áðan.