Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:33:30 (1375)

2000-11-03 15:33:30# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni færði ég rök fyrir því að viðhalda núverandi fyrirkomulagi. Mér fannst það fara dálítið fyrir brjóstið á hv. flutningsmönnum þó ég teldi mig hafa komið fram af mikilli kurteisi og færa einungis rök fyrir málflutningi mínum.

Ég vil halda því fram að ábyrgð sérhvers einstaklings sé mjög mikil á þessu sviði. Ef þessi umræða gæti orðið til þess að fleiri litu í eigin garð og hugsuðu: hvað er að hjá mér, þá er umræðan svo sannarlega einhvers virði, þó ég sé ekki tilbúin til að samþykkja þá nefnd sem hv. þingmenn stinga upp á í sinni þáltill. að skipuð verði.

En ég tek undir að ,,stóri bróðir``, þ.e. ríkið, getur ekki séð um allt. Þess vegna er ábyrgð einstaklinga mjög mikil á þessu sviði enda hefur komið í ljós samkvæmt upplýsingum sem liggja nú fyrir af hálfu rafmagnsöryggisdeildar Löggildingarstofu um bruna og tjón af völdum rafmagns, að aðgæsluleysi ásamt gömlum, biluðum rafbúnaði er ástæða 89% af rafmagnsbrunum hér á landi á árinu 1999. Einhverjir kynnu kannski að reyna að nota þessar upplýsingar til að benda á að rafmagnseftirlitið sé ekki í lagi. En þá er því til að svara að aukið rafmagnseftirlit hefði ekki áhrif til minnkunar eða ekki eru miklar líkur á því að það mundi hafa áhrif til minnkunar á rafmagnsbrunum því að hér er um að ræða ranga notkun rafmagnstækja, aðgæsluleysi ásamt gömlum og biluðum rafmagnstækjum. Brunar vegna lélegra raflagna eru sem betur fer fátíðir. Þetta ítrekar það sem ég var að segja áðan að það er ábyrgð einstaklingana að hver passi sig. Það skiptir mestu máli.

Hæstv. forseti. Mig langar til að koma inn á þá könnun sem hefur mikið verið til umræðu og hv. þingmenn létu gera á þessu ári. Þar kom fram að mjög mikil óánægja væri með núverandi skipan rafmagnsöryggismála og það hefur verið ítrekað margsinnis í umræðunni. Ég vil hins vegar greina frá því að það gætti mikillar óánægju líka hjá fagmönnum á rafmagnssviði með könnunina. Þess vegna óskaði Löggildingarstofan eftir áliti sérfræðinga, rannsóknardeildar markaðssviðs PricewaterhouseCoopers á könnun þingmannanna. Löggildingarstofan vildi með því fá umfjöllun sérfróðra aðila um það hversu marktæk könnunin gæti talist og hvort hún gæfi raunhæfar vísbendingar um ástand rafmagnsöryggismála.

Í stuttu máli er það niðurstaða sérfræðinga fyrirtækisins að könnun þingmannanna hafi að flestu leyti vikið frá viðteknum og viðurkenndum aðferðum við framkvæmd viðhorfskannana og að það skapi verulega óvissu um marktækni hennar. Í niðurlagi álitsins segir:

,,Eftir því sem óvissuþáttum fjölgar í rannsóknum af þessu tagi aukast líkur á villum í túlkun niðurstaðnanna.``

Í áliti sínu bendir PricewaterhouseCoopers enn fremur á að samkvæmt lögum og reglum þurfi að afla leyfis tölvunefndar --- og ég nefndi það hér áðan --- við gerð kannana af þessu tagi. Samkvæmt upplýsingum frá tölvunefnd var ekki aflað leyfis hjá henni fyrir könnun þingmannanna.

Ég ætla að nefna nokkur dæmi um það hversu óvönduð vinnubrögð þarna eru á ferð. Það kemur ekki fram hefðbundinn texti um að viðtakanda sé ekki skylt að svara einstökum spurningum né listanum í heild eins og tíðkast við gerð skoðanakannana. Þess er ekki getið hvernig nafnleynd verður tryggð enda þótt henni sé heitið og er líklegt að það hafi haft áhrif á þátttöku. Svarblöð voru númeruð og svarendum boðið að undirrita þau. Slíkt er ekki í samræmi við viðteknar aðferðir við gerð kannana. Í kynningarbréfinu sem fylgdi könnuninni er leiðandi orðalag sem getur orkað tvímælis og verið til þess fallið að hafa áhrif á svörin. Ekki voru kynnt önnur sjónarmið en þau sem þingmennirnir hafa til viðfangsefnisins, hlutleysis var því ekki gætt. Víða eru svarmöguleikar leiðandi, villandi eða ekki tæmandi og er það til þess fallið að hafa áhrif á niðurstöður. Slíkt er í andstöðu við þá vinnureglu að við gerð og framkvæmd kannana sé orðalag eins hlutlaust og kostur er og varast beri leiðandi spurningar eða takmarkaða svarmöguleika þannig að svarendum sé ekki gefinn kostur á að svara eins og þeir telja rétt hverju sinni. Ekki er að sjá að farið hafi verið eftir hefðbundnum rannsóknaraðferðum við val úrtaks. Meðal þeirra sem spurðir voru álits á ástandi rafmagnsöryggismála voru samkvæmt kynningu á niðurstöðu könnunarinnar starfsmenn trygginga, starfsmenn félagasamtaka, starfsmenn sveitarfélaga, starfsmenn Vinnueftirlitsins og annað. Líklegt er að svör og svarhlutfall tengist að einhverju leyti því að könnunin er framkvæmd af þingmönnunum tveimur og telja verður afar líklegt að fyrirkomulag könnunarinnar í heild hafi hvatt suma en latt aðra. Hafa verður hugfast að hér um álit svarenda að ræða hvað ástand og fyrirkomulag rafmagnseftirlits og rafmagnsöryggismála varðar en ekki endilega hvernig ástandið í raun er, segir í lokaorðum PricewaterhouseCoopers.

Þetta er álit fagmanna á þeirri merku könnun sem getið er um í greinargerð með tillögunni og hv. þingmenn hafa nokkuð hreykt sér af hér í umræðunni.

Ég get hins vegar greint frá því að samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði gerðu könnun á meðal löggiltra rafverktaka og þar kemur fram að 70% töldu eftirlitið of mikið eða eðlilegt. Nú er ég ekki að taka undir að það sé of mikið en þetta segir sína sögu. (Gripið fram í: Hvenær var hún gerð?) Þessi könnun var tiltölulega nýlega gerð. Ég tel því að sá málflutningur sem hér hefur verið uppi af hálfu hv. þm. sé að einhverju leyti, ég vil kannski ekki segja á misskilningi byggður, en ég held að þeir hafi farið heldur fram úr sjálfum sér í sambandi við röksemdafærslu fyrir tillögu sinni.