Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 16:05:14 (1385)

2000-11-03 16:05:14# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[16:05]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég harðneita því að við eigum ekki að taka þetta mál til umræðu. Auðvitað eigum við að ræða þessi mikilvægu mál og hæstv. iðnrh. fagnaði sérstaklega málefnalegri umræðu sem hefur farið fram í dag og mikilvægri fyrir rafmagnsöryggismálin. Örygginu hefur ekki hrakað. Hv. þm. Gísli S. Einarsson nefndi að í 40 ár hefðu gamalveitur verið óskoðaðar. Þar af var Ragmagnseftirlit ríkisins hve lengi? Í 35 ár? Ég vil því meina að örygginu hafi ekki hrakað og ef eitthvað er hafi það batnað. Auðvitað eigum við að skoða kerfið sem við erum með og gera það enn skilvirkara og enn betra fyrir neytandann og einstaklingana í þjóðfélaginu. Ef menn hafa akkúrat ekkert að óttast, eiga menn heldur ekki að flýja þá umræðu sem snýst m.a. um helstu röksemdir með þessari þáltill. Hv. þm. Ögmundur Jónasson undrast að það skuli hafa verið tekið fram í máli hæstv. ráðherra áðan hvers slags könnun þetta er, rökstuðningurinn er helmingurinn af þáltill. með þessari skýrslu. Ég minni á að hv. þm. Ögmundur Jónasson var með mér og lagði fram afar vandaða vinnu með okkur í hv. allshn. á sl. vetri þar sem við fórum mjög gaumgæfilega í gegnum persónuverndina. Við ítrekuðum að við vildum gæta nafnleyndar í könnunum, við vildum að fólk nyti persónuverndar, sérstaklega gagnvart skýrslum, könnunum og stofnunum og þar var hv. þm. Ögmundur Jónasson í broddi fylkingar.