Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 16:16:53 (1390)

2000-11-03 16:16:53# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[16:16]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. um breytingar á lögum um fjarskipti. Þar er lagt til að undanþágur verði veittar frá áskilnaði 3. mgr. 44. gr. fjarskiptalaga um að sá sem vill hljóðrita símtal skuli geta þess í upphafi samtals.

Sérstök ákvæði um leynd og vernd fjarskipta hafa um áratuga skeið verið í fjarskiptalögum. Aðgangur að upplýsingum er óvenju greiður í fjarskiptum og trúnaður því grundvallaratriði í fjarskiptarekstri. Þessi ákvæði um leynd og vernd hafa jafnan falið í sér áréttingu á grunnsjónarmiðum um friðhelgi einkalífsins.

Í 3. mgr. 44. gr. fjarskiptalaga, sem samþykkt voru á síðasta þingi, er nýmæli um vernd fjarskiptasendinga. Það felur í sér að öll hljóðritun símtala er óheimil nema sá sem vill hljóðrita tilkynni viðmælanda sínum fyrst um þá fyrirætlun sína. Sú meginregla er í samræmi við sjónarmið um friðhelgi einkalífsins sem byggir á 71. gr. stjórnarskrár, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 5. gr. tilskipunar 97/66/EB, um friðhelgi einkalífs í fjarskiptum. Ákvæði 3. mgr. 44. gr. er þó frábrugðið framangreindum réttarheimildum að því leyti að það mælir á hlutlægan hátt fyrir um hvernig tilkynning um hljóðritun skuli fara fram.

Með tækniþróun og verðlækkun búnaðar hefur umfang hljóðritana í þjóðfélaginu margfaldast án þess að umræða um það hafi farið hátt. Bréf samtaka fjármálafyrirtækja til samgrn., dags. 2. febr. sl., endurspeglar þá þróun. Í bréfinu sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Íslensk fjármálafyrirtæki rétt eins og önnur evrópsk fjármálafyrirtæki hljóðrita símtöl undir ýmsum kringumstæðum. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að í sívaxandi mæli er stofnað til viðskipta símleiðis og hljóðritun símtals er eina leiðin til að sanna hvað fram fór.``

Þá sagði enn fremur, með leyfi forseta:

,,Þetta gildir um viðskipti á millibankamarkaði hér á landi, í viðskiptum milli íslenskra fjármálafyrirtækja og erlendra, í viðskiptum með verðbréf og gjaldeyri og um hvers konar bankaviðskipti sem framkvæmd eru að beiðni viðskiptamanns í símtali við þjónustuver eða þjónustufulltrúa svo nokkur dæmi séu nefnd.``

Eins og bréf þetta ber með sér eru hljóðritanir á fjármálamarkaði umfangsmiklar. Hljóðritun fer hins vegar fram á fleiri sviðum án þess að nokkuð liggi fyrir um að aðilar símtals hafi vitneskju um það. Umfang hljóðritana á hugsanlega eftir að aukast enn frekar með þeirri tækniþróun sem fyrirsjáanleg er og gæti leyst hefðbundinn talsíma af hólmi.

Friðhelgi einkalífs nýtur verndar stjórnarskrár og mannréttindasáttmála. Ákvæði þessarar réttarheimildar eru almennt orðuð og því skiptir túlkun mjög miklu þegar inntak þeirra er skýrt. Til að taka af öll tvímæli um túlkun þessara ákvæða á sviði fjarskipta var talið nauðsynlegt að fjarskiptalög mæltu nánar fyrir um vernd einkalífs á sviði fjarskipta. Samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu er upptaka símtals án vitundar hlerun í skilningi mannréttindasáttmálans. Gildir þá einu hvort þriðji aðili tekur upp samtal eða annar aðili símtals án vitundar hans. Ég tel ástæðu til að vekja sérstaka athygli á þessu vegna ummæla hv. 13. þm. Reykv. Ögmundar Jónassonar hér á Alþingi þegar annað frv. svipaðs efnis sem varðaði sömu grein var til meðferðar.

Ég ætla að nefna dæmi úr dómaframkvæmd sem sýnir hve brýnt er að lög kveði skýrar á um lögmæti hljóðritunar. Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli A gegn Frakklandi er frá 26. okt. 1993. Málsatvik voru svohljóðandi:

Maður nokkur gaf sig fram við lögregluna í París og sagði að eiginkonan A hefði boðist til að greiða honum umtalsvert fé fyrir að myrða eiginmann hennar. Hann bauðst til að hringja í A og taka samtalið upp til að afla sönnunargagna fyrir lögregluna. Umræddur lögregluþjónn lánaði upptökubúnað og upptakan fór fram, þó án þess að um formlega lögregluhlerun væri að ræða. Lögregluþjónninn varðveitti sjálfur upptökuna sem ekki fór í gagnasafn lögreglunnar. Hljóðritun samtalsins var talin ólögmæt skerðing á einkalífi, sbr. 8. gr. mannréttindasáttamála, þrátt fyrir að það hefði verið viðmælandi hennar sem framkvæmdi hljóðupptökuna.

Af dómum Mannréttindadómstólsins má draga þá ályktun að brotið sé gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og þar með 21. gr. stjórnarskrár Íslands ef samtal er hljóðritað án vitneskju beggja aðila nema sérstök lagaheimild komi til. Þörf sérstakrar lagaheimildar verður því brýnni sem hljóðupptaka hefur að geyma viðkvæmari persónuupplýsingar.

Rétt er að benda á að stjórnarskráin gerir ekki mun á því hvort stjórnvöld eða einstaklingar hlera samtöl, ólíkt mannréttindasáttmálanum. Upptaka samtals, þ.e. hlerun, er því ólögmæt að íslenskum rétti án tillits til þess hvort það eru opinberir aðilar eða einstaklingar sem standa að henni. Þrátt fyrir að menn njóti friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu er slík helgi takmörkunum háð því að með lagaheimild og dómsúrskurði má heimila hleranir. Á grundvelli dómsúrskurðar má hlera samtöl þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 44. gr. Ákvæði fjarskiptalaga haggar því ekki slíkum heimildum.

Nokkur gagnrýni hefur komið fram á ákvæði 3. mgr. 44. gr. Fyrst ber að nefna gagnrýni Blaðamannafélags Íslands en stjórn þess telur að blaðamönnum séu settar óeðlilegar skorður. Hefur í því sambandi verið vísað til þess hlutverks sem Mannréttindadómstóll Evrópu ætlar fjölmiðlum í lýðræðissamfélagi nútímans. Þá varð nokkur umræða um þýðingu ákvæðisins gagnvart þolendum persónuofsókna, lögreglu og fjármálastofnunum.

Í frv. því sem ég mæli hér fyrir er leitast við að koma til móts við þessa aðila. Sú meginregla gildir áfram að hljóðritun megi ekki fara fram án vitneskju hlutaðeigandi aðila. Hins vegar eru tvíþættar undanþágur veittar frá þeim áskilnaði 3. mgr. 44. gr. fjarskiptalaga að sá aðili að símtali sem vill hljóðrita samtal skuli í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun sína. Þannig segir í 1. mgr. frv.:

,,Aðili þarf þó ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku samtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina.``

Hér skiptir öllu máli að viðkomandi hafi fengið eða getað fengið vitneskju um upptökuna. Ljóst er að með þessu ákvæði er fjallað um alla aðra en stjórnvöld, þar á meðal einstaklinga, félög og fjármálastofnanir sem ekki þurfa að tilkynna sérstaklega um hljóðritun samtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hana. Sem dæmi má nefna ákvæði í viðskiptasamningi, almenn ummæli eða tilkynningar í eitt skipti fyrir öll. Fórnarlamb persónuofsókna á samkvæmt því að geta hljóðritað samtöl við brotamann eftir einfalda tilkynningu. Varla getur slík krafa laga um tilkynningu verið talin of íþyngjandi.

Ég tek heils hugar undir þá skoðun stjórnar Blaðamannafélagsins að fjölmiðlar gegni veigamiklu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Það breytir ekki þeirri staðreynd að hljóðritun samtals með vitneskju annars aðila en ekki hins hefur verið jafnað við hlerun af Mannréttindadómstóli Evrópu eins og áður sagði. Ísland hefur verið aðili að Mannréttindadómstólnum frá árinu 1954 og samningurinn var lögleiddur hér á landi árið 1994. Gildandi mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar eru samin með hliðsjón af sáttmálanum og mega aldrei fela í sér minni réttarvernd.

Í 2. gr. frv. er opinberum stofnunum heimilað að hljóðrita samtöl er þeim berast þegar slík hljóðritun er eðlilegur þáttur í starfsemi stjórnvalds og nauðsynleg vegna þjóðar- og almannaöryggis. Um fyrirkomulag slíkrar hljóðritunar og kynningu hennar fyrir almenningi og starfsmönnum stofnunar skal fara eftir skilyrðum sem Persónuvernd kann að setja. Enda þótt gerður sé greinarmunur á stjórnvöldum og öðrum í frv. þessu að forminu til eru ekki gerðar minni kröfur til stjórnvalda. Þvert á móti er tryggt virkt eftirlit Persónuverndar með slíkum hljóðritunum samkvæmt frv.

Þá segir í 3. mgr. að úrvinnsla hljóðritana skuli vera í samræmi við lagaákvæði um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þeir sem hyggjast hljóðrita samtöl í síma ættu því að hafa hliðsjón af almennum lögum sem gilda á hverjum tíma um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, auk ákvæða fjarskiptalaga. Með því er unnt að ná samræmdri réttarframkvæmd um skilmála hljóðritunar og úrvinnslu.

Að lokum vil ég að það komi fram að tölvunefnd og dóms- og kirkjumrn. hafa farið yfir frv. Tölvunefnd taldi, í ljósi almennra sjónarmiða um persónuvernd, eðlilegt að heimild til upptöku væri háð áskilnaði um tilkynningu. Var í því sambandi vísað til skýringar- og fræðirita um framangreinda tilskipun ESB um persónuvernd í fjarskiptum. Ég get fallist á þessa afstöðu tölvunefndar. Það má ekki hvika frá þeirri meginreglu að fólk fái vitneskju um hljóðritun samtala. Með frv. þessu er sá réttur ekki skertur. Hins vegar er komið til móts við þá aðila sem þurfa að hljóðrita samtöl, m.a. vegna starfs síns. Þeir þurfa ekki að tilkynna um fyrirhugaða hljóðritun ef ætla má að viðmælanda sé um hana kunnugt.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.