Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 16:31:19 (1394)

2000-11-03 16:31:19# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[16:31]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski rétt að lesa það sem segir í 1. gr. frv.:

,,Aðili þarf þó ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku samtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina.``

Grundvallaratriðið í þessu er að það ber að tryggja að vitneskja sé til staðar um að upptaka fari fram. Það er aðalatriði málsins og grunnhugsunin í þessari grein fjarskiptalaganna. Hins vegar er verið að reyna að auðvelda þeim sem eiga í hlut framkvæmdina þannig og það liggur alveg fyrir að það er ekkert sérstakt ákvæði um blaða- og fréttamenn umfram aðra í frv. sem ég er að mæla fyrir. Stjórnmálamenn mega ekkert fremur taka upp án þess að láta vita af því en blaða- og fréttamenn þannig að það gildir það sama um bæði stjórnmálamanninn og blaðamanninn að hann þarf að hafa vitneskju um það að símtöl séu tekin upp ef um það er að ræða.

Ég vil að það komi fram alveg skýrt að ég skil afskaplega vel að blaða- og fréttamenn hafi nokkrar áhyggjur af því að það geri þeim erfiðara um vik að vinna þegar settar eru harðari reglur um þetta. En ég minni á að ég tel að þessi ágæti hópur þurfi auðvitað að semja sig að öllum lögum og reglum eins og aðrir. Ég skil jafnframt að þeir létta mjög sitt verk með því að hafa þá tækni í sínum höndum að taka upp samtöl. En það verða að gilda sömu reglur um þá og aðra í þjóðfélaginu.