Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 17:06:42 (1404)

2000-11-03 17:06:42# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[17:06]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get auðvitað ekki svarað nema hluta af andsvari hv. þm. í alvöru. En þeim hluta andsvarsins sem ég tek alvarlega skal ég svara.

Frv., eins og það er flutt af mér, gengur út frá ákveðnum forsendum og til þess að rýmka fyrir og skapa möguleika á betri framkvæmd er 1. mgr. eins og hún er. Það er alveg ljóst. Vandann við að fara þá leið sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vill má skýra með dæmi. Ef frv. að hans skapi yrði samþykkt þá mundu fréttamenn hringja í hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og þeir mættu taka upp samtalið án þess að láta vita en hann mætti ekki njóta sama réttar. Er það eðlilegt? Ég segi nei. Ég tel að það sé ekki eðlilegt að aðeins annar aðilinn megi nýta sér slíkar heimildir vegna þess að það er verið að mismuna ef svo er gert.

Ég skil mætavel að sérstaða fréttamanna er mjög mikil og segulbandið er mikið grundvallartæki fyrir þá. Þess vegna spyr ég oft þegar ég á samtöl við fréttamenn: ,,Er ekki örugglega verið að taka upp?`` Það felst heilmikið öryggi í því fyrir báða aðila. Þess vegna þarf auðvitað að reyna að skapa skilyrði, og það erum við að reyna að gera, til að auðvelda þessari stétt verkefni sitt.