Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 17:10:03 (1406)

2000-11-03 17:10:03# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[17:10]

Árni Johnsen (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli harðlega þeim ávirðingum sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ber á Grímseyinga þó ekki sé nema að láta sér detta í hug að í Grímsey séu glæpamenn. Það er fyrir neðan allar hellur.

Hitt er annað og snertir þetta frv. til laga að ég tek undir orð hæstv. samgrh., sérstaklega það er lýtur að blaðamönnum. Framsetning þessara breytinga hljómar saman við breytingar sem samgn. fjallaði um á síðasta þingi. Þar sem segir í upphafi 1. mgr. að þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritun, þá á það auðvitað fullkomlega við um fréttamenn. Það er grundvallarregla fréttamanna að kynna sig með nafni og stöðu, þ.e. á hvaða fréttamiðli þeir eru. Þar með á að vera ljóst að verið er að leita eftir upplýsingum og gögnum. Öllum á að vera kunnugt um að það þýðir hljóðritun í mörgum tilvikum. Það er því tryggt og er kannski grundvallaratriðið sem menn hafa fjallað um og deilt um í þessu efni, að hefta ekki vinnu blaðamanna.

Það leyfist hins vegar ekki, eins og hefur komið fram á útvarpsstöðvum á undanförnum árum, að fréttamenn eða þáttagerðarmenn í útvarpsstöðvum hringja í fólk úti í bæ, kynna sig ekki, taka spjall upp eða senda beint og kynna það án þess að menn viti haus eða hala á viðmælanda í raun og veru. Það heitir ekki ,,ótvírætt`` og þess vegna er það ólöglegt og þetta kemur í veg fyrir slíka misnotkun á trúnaði dagskrárgerðarmanns við viðmælanda. Þetta eru atriði sem skipta miklu máli að mínu mati.

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir á að hér er verið að veita andsvör við ræðu hæstv. samgrh. en ekki öðrum ræðum sem hér hafa verið fluttar.)