Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 17:18:53 (1411)

2000-11-03 17:18:53# 126. lþ. 20.15 fundur 194. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (GSM-leyfi) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[17:18]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Með frv. er lagt til að heimiluð verði gjaldtaka að fjárhæð 16,6 millj. kr. vegna úthlutunartíðni til starfsrækslu þriðja rekstrarleyfishafans á GSM-þjónustu.

Rétt er að taka fram í upphafi að frv. þetta og ákvörðun um úthlutun á þriðja GSM-leyfinu er með öllu óháð úthlutunum á leyfum vegna svokallaðrar þriðju kynslóðar farsíma og umræðu um verðmæti tíðna í þriðju kynslóðinni. Ég mun hins vegar fljótlega taka ákvörðun um fyrirkomulag þeirrar úthlutunar og leggja fram frv. þar um.

Markmið þessa frv. er að afla lagaheimildar til gjaldtöku vegna þriðja GSM-900 leyfisins. Fjárhæðin, 16,6 millj., er sambærileg því gjaldi sem Landssíminn og Tal greiddu fyrir sín leyfi en hefur verið uppfærð miðað við vísitölu neysluverðs. Með því eru væntanlegum handhafa þriðja GSM-leyfisins settir sambærilegir skilmálar.

Eins og kunnugt er starfrækja tveir aðilar, Landssíminn og Tal, farsímanet til GSM-þjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að úthluta þriðja leyfinu og hefur nú þegar auglýst eftir umsóknum. Frestur til að skila inn umsóknum er 15. desember nk. Stofnunin hefur jafnframt ákveðið hvaða kröfur verða gerðar til leyfishafa, þar á meðal um útbreiðslu, og fylgja þær upplýsingar frv. þessu í fskj. I.

Í I. kafla fskj. eru skilgreindar upplýsingar sem umsækjendum ber að veita í umsóknum og í II. og III. kafla er skýrt hvaða sjónarmið munu ráða úthlutun. Stofnunin hefur við samningu þessara krafna haft til hliðsjónar fyrirmæli fjarskiptalaga um að tryggja skuli eðlilegt samkeppnisumhverfi. Jafnframt hefur verið leitast við að hafa kröfur um útbreiðslu og þjónustusvæði svipaðar þeim sem gerðar voru til núverandi leyfishafa. Ég tel eðlilegt að gera þessar kröfur um útbreiðslu, ekki síst við tilkomu ákvæðis um innlenda reikisamninga í gildandi fjarskiptalögum. Hér er mörkuð sú stefna að skilmálar þeir sem þriðji GSM-leyfishafinn þarf að fullnægja verði sem líkastir þeim sem núverandi fyrirtæki hafa þurft að lúta. Það hlýtur að teljast bæði eðlilegt og sanngjarnt.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. samgn.