Einangrunarstöð gæludýra í Hrísey

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 13:55:54 (1428)

2000-11-08 13:55:54# 126. lþ. 21.2 fundur 45. mál: #A einangrunarstöð gæludýra í Hrísey# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. landbrh. svörin og hv. þm. fyrir að hafa tekið þátt í umræðunni og góðar ábendingar. Mér finnst hins vegar nokkuð hryggilegt að hæstv. landbrh. ætlar sér ekki að koma á fót fleiri einangrunarstöðvum en leiðin er þá sú eins og hv. þm. hafa bent á að við á hinu háa Alþingi tökum þetta mál til ítarlegrar umræðu þegar frv. verður tekið til umræðu sem hæstv. landbrh. gat um.

Mikil eftirspurn er eftir einangrunarstöð á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjunum. Ríflega helmingur þeirra sem notfæra sér einangrunarstöðuna í Hrísey er héðan af þessu svæði og það er sjálfsögð krafa og eðlileg að einangrunarstöð verði komið á fót á þessu svæði. Það er ekki bara vegna þess að við erum að mæta þörfum eigendanna sjálfra og koma í veg fyrir mikið óhagræði sem þeir verða fyrir af þessum miklu flutningum norður í Hrísey heldur líka þess sem ég tel mikilvægast, hagsmuna dýranna sjálfra. Þetta eru miklir flutningar eins og ég sagði áðan. Flutningarnir eru erfiðir fyrir dýrin og við verðum að bæta úr þessu.