Félög og fyrirtæki sem skráð eru á Verðbréfaþingi

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:02:02 (1431)

2000-11-08 14:02:02# 126. lþ. 21.4 fundur 141. mál: #A félög og fyrirtæki sem skráð eru á Verðbréfaþingi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson bar upp fsp. til viðskrh. á þskj. 141, hún er 141. mál þingsins, um félög og fyrirtæki sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands. Fsp. er í tveimur liðum og hljóðar fyrri liður hennar svo:

,,Hvaða félög og fyrirtæki hafa hlotið skráningu á Verðbréfaþingi Íslands?``

Á aðallista Verðbréfaþings Íslands eru í dag skráð 74 félög. Ég hef afhent hv. þm. lista yfir þessi félög þar sem ég get ekki lesið þau upp miðað við þennan stutta ræðutíma. Af skráðum félögum eru sjávarútvegsfyrirtæki flest eða 20 talsins, hlutabréfasjóðir eru 14, iðnfyrirtæki 12, fjármála- og tryggingafyrirtæki 7, upplýsingafyrirtæki 5, þjónustufyrirtæki 5, olíudreifingarfyrirtæki 3, lyfjafyrirtæki 3 og 3 flutningafyrirtæki.

Síðari spurning hv. þm. hljóðar svo:

,,Í hverjum þeirra er erlendum aðilum ekki heimilt að fjárfesta?``

Um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri gilda lög nr. 34/1991. Í 4. gr. laganna er fjallað um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila. Í 1. mgr. 4. gr. er að finna takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar í lögsögu Íslands og fyrirtækjum sem eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi. Bein erlend fjárfesting er óheimil í slíkum félögum.

Óbeinni fjárfestingu í félögum sem stunda fiskveiðar og eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða eru jafnframt settar nokkrar skorður. Þau geta eingöngu verið í eigu íslenskra lögaðila sem ekki eru í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Ef íslenski lögaðilinn á ekki yfir 5% í sjávarútvegsfyrirtækinu má hinn erlendi aðili hins vegar eiga allt að 33% í íslenska lögaðilanum.

Enn fremur er rétt að víkja að því að takmarkanir eru á eignaraðild erlendra aðila í flugrekstri hér á landi. Samanlagður eignarhluti erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki sem stundar flugrekstur hér á landi má á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%. Slík takmörkun tekur þó ekki til einstaklinga sem búsettir eru í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og lögaðila sem þar eru heimilisfastir.

Af þessu leiðir að fjárfesting erlendra aðila er óheimil í sjávarútvegsfyrirtækjum sem skráð eru á Verðbréfaþingi og takmarkanir eru á eignarhaldi erlendra aðila í Flugleiðum. Einnig eru takmarkanir á erlendri eignaraðild í öllum þeim félögum sem eiga hlut í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.