Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:38:04 (1448)

2000-11-08 14:38:04# 126. lþ. 21.6 fundur 210. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til félmrh.) fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir mjög greinargóð svör miðað við þann tíma sem hann hafði til svara. Í máli hans kom fram að unnið væri að frekari stefnumótun á þessu sviði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Staðreyndin er sú að sveitarfélögin vinna einnig að stefnumótun en þau skortir lagastoð að ýmsu leyti. Ríkið hefur ekki mótað skýra stefnu enda þótt ákveðnar kröfur séu gerðar, t.d. í aðalnámskrá gagnvart skólakerfinu.

Hæstv. félmrh. reifaði þá hugmynd að málefni innflytjenda færu öll undir sama ráðuneytið. Þetta kann að hafa ákveðna hagræðingu í för með sér, þótt ég velti einnig fyrir mér hvort einhverjir ókostir kunni að fylgja þessu. Ég geri mér grein fyrir því að þá er skammt í mótsagnakenndan málflutning þegar maður annars vegar vill að tekið sé heildstætt á málunum. Hins vegar vill maður forðast að tekið sé á málefnum innflytjenda sem aðgreindum hópi, hópi sem maður vill í reynd að renni inn í íslenskt samfélag eins og kostur er.

Ég tel mjög mikilvægt að vel sé staðið að túlkaþjónustunni og þá er það ekki aðeins spurningin um að veita slíka þjónustu. Tryggja þarf að hún sé ókeypis, að hún sé án endurgjalds, og mig langar til að spyrja hæstv. félmrh. hvort þetta sé tryggt. Ég hef grun um að þar sé víða pottur brotinn, að við veitum ekki þá þjónustu alls staðar þar sem þörf er á.

Ég hef sett fram spurningar gagnvart öðrum ráðherrum, gagnvart hæstv. menntmrh. sem bíður væntanlega næstu viku, sem snerta einnig málefni innflytjenda. En tek undir með öðrum hv. þm. sem hafa tjáð sig um þetta mál að mjög mikilvægt er að um það skapist breið pólitísk samstaða að standa hér myndarlega að verki.