Jarðskjálftarannsóknir

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:55:59 (1454)

2000-11-08 14:55:59# 126. lþ. 21.7 fundur 100. mál: #A jarðskjálftarannsóknir# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Eftir hina skelfilegu jarðskjálfta sem riðu yfir Suðurland 17. og 21. júní sl. hafa verið gerðar mjög merkilegar rannsóknir af starfsmönnum jarðskjálftamiðstöðvar Háskóla Íslands á Selfossi undir forustu Ragnars Sigurbjörnssonar og starfsmanna hans sem kynntar voru 10. október sl. Þá hefur Veðurstofa Íslands gefið út merkilega skýrslu um jarðskjálfta sem unnin er af Ragnari Stefánssyni og starfsmönnum hans á jarðskjálftadeild Veðurstofunnar.

Tækni fleygir fram í vísindasamfélaginu eins og reyndar í samfélaginu öllu. Vísindamenn eru í raun komnir fram úr stjórnvöldum. Þess vegna er brýnt að nýta þær upplýsingar sem fram koma í þessum skýrslum sem allra fyrst því þær eru afar mikilvægar. Jarðskjálftasérfræðingar geta kortlagt sprungur sem ekki sjást á yfirborði jarðar og þess eru dæmi að fólk hefur ætlað að endurbyggja eða byggja hús sín á sprungum sem ekki sjást á yfirborðinu. Því er mjög brýnt að flýta aðgerðum. Við getum gert betur með þessum vísindarannsóknum og með þeim hætti eigum við að geta skapað meira öryggi íbúa á svæðinu. Því spyr ég hæstv. umhvrh.:

1. Hvernig hyggst ráðherra nýta skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi, um áhrif jarðskjálftanna á Suðurlandi 17. og 21. júní sl., sem kynnt var 10. október?

2. Mun ráðherra láta gera áhættugreiningu sem nær til allra jarðskjálftasvæða landsins?