Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 10:52:13 (1461)

2000-11-09 10:52:13# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[10:52]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Við ræðum að sönnu stórmál. Ég verð í upphafi að játa, virðulegi forseti, að ég ruglaðist aðeins í ríminu undir ræðu hæstv. félmrh. þegar hann var farin að ræða í gríð og erg mál sem er síðar á dagskrá í dag, nefnilega barnabætur og þau áform ríkisstjórnarinnar, raunar þann samning sem ríkisstjórnin gerði við verkalýðshreyfinguna í landinu í síðustu samningum, um að skila að hluta til, herra forseti, þeim fjármunum sem þessi ríkisstjórn hefur tekið af barnafólki í landinu á síðustu fimm árum. Mér þykir býsna djarft hjá hæstv. ráðherra að leggja það hér inn í þessa umræðu um fjármál sveitarfélaga og búa til einhverja meinta jöfnu í því sambandi. Á sama hátt verð ég að segja að hæstv. félmrh. hefur sennilega verið á öðrum fundi en ég eða a.m.k. á öðrum stað í salnum á Hótel Sögu á dögunum þegar sveitarstjórnarmenn ræddu fjármál sveitarfélaga þar sem hann upplifði þann fund á þann veg að þar væri himinhrópandi hamingja með þessa niðurstöðu sem hann er hér að mæla fyrir. Hann hefur sennilega verið í útlöndum ef hann hefur ekki áttað sig á því eða heyrt af því að sveitarfélög og sveitarstjórnir vítt og breitt um landið hafa verið að álykta beinlínis í þá veru að þau lýsa óánægju sinni með þá niðurstöðu sem hann mælir hér fyrir. Og mér finnst leggjast lítið fyrir hæstv. félmrh. ef hann ætlar að vega í sama knérunn og kollegi hans á ráðherrastóli, hæstv. fjmrh., þegar hann ætlar að söngla þann söng hér undir þessum formerkjum að sveitarstjórnarmenn verði að bera ábyrgð og að sveitarstjórnarmönnum sé ekkert of gott að leggja á skatta í sínu sveitarfélagi. Ég segi undir þessum formerkjum því að hér ræðum við það fyrst og síðast, herra forseti, hvernig tekjuskiptingin eigi að vera milli þessara opinberu aðila sem eru ríki annars vegar og sveitarfélög hins vegar.

Hér erum við ekki að ræða þann akademíska þátt þessa máls hvort sveitarfélögin almennt eigi að hafa meira um það að segja, hvort þau eigi að útvega mikla þjónustu eða litla, hvort þau eigi að leggja á háa skatta eða lága. Það er auðvitað önnur ferð sem við förum í og getum rætt undir öðrum formerkjum. Hér erum við hins vegar einfaldlega að ræða það hvernig ríkisvaldið ætlar að bregðast við þeim veruleika sem við hefur blasað og margnefnd tekjustofnanefnd komst að sameiginlegri niðurstöðu um, nefnilega því að á síðasta áratug og í sívaxandi mæli á síðustu árum hefur snúist mjög til hins verri vegar hvað varðar afkomu sveitarfélaga. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, og engar deilur voru uppi um það, að tekjuþörf sveitarfélaganna af þessum sökum væri um það bil 4--6 milljarðar á ári hverju. Ástæður þessa hafa menn í höndum og um það er heldur ekki deilt. Meðal þeirra --- það er sennilega á bilinu 1--2 milljarðar, þó sennilega nærri 2 milljörðum --- eru breytingar sem hafa verið gerðar í þessum sal á skattalögum að frumkvæði núverandi ríkisstjórnar sem hefur leitt til þess beinlínis að sveitarfélögin hafa séð af tekjum sem þau höfðu áður.

Í annan stað er líka óumdeilt að sveitarfélögin hafa þurft að taka á sig nýjar skuldbindingar án þess að fullnægjandi tekjustofnar hafi fylgt. Nærhendis er auðvitað sá stóri tilflutningur sem átti sér stað fyrir örfáum árum sem er flutningur grunnskólans í heild og breidd. Það er borðliggjandi sömuleiðis, þó að menn deili þar um upphæðir, krónur eða aura, að þar hafa sveitarfélögin þurft að leggja til stóraukna fjármuni án þess að fullnægjandi tekjur hafi fylgt.

Herra forseti. Við skulum ekki deila um forsendur mála. Þær eru einfaldlega þannig að tekjuskiptingin hefur þróast í þá veru að ósanngirni hefur gætt, ríkissjóður hefur haldið eftir meiri fjármunum, meiri tekjum, en honum ber en sveitarfélögin minni. Þennan mismun ætluðum við hér, og til stóð, að leiðrétta.

Herra forseti. En það stóð aldrei til að þriðji aðili leiðrétti hann. Það stóð aldrei til að einhver þriðji aðili borgaði þennan brúsa, nefnilega skattgreiðendur í landinu. Það er alveg sama hvernig þessum peningi er velt upp og honum kastað til eða frá. Hér erum við að ræða frv. sem leiðir til þess að útsvar, skattálögur, munu hækka á almennt launafólk. Er það sú ferð sem lagt var upp í á miðju síðasta ári þegar tekjustofnanefndin var sett á laggirnar? Nei, auðvitað ekki. Ég skil býsna vel að undan svíði hjá hæstv. ríkisstjórn sem hefur gjarnan haft þann háttinn á að benda á stjórnarandstöðuna og telja hana upphaf alls ills þegar kemur að skattálögum á fólk. En hér er öðru til að dreifa. Það hefur aldrei þótt sérstaklega stórmannlegt í lífinu eða pólitíkinni að einn ákvarði og annar framkvæmi. En þannig er það nákvæmlega. Í þessu frv. er það beinlínis þannig að ríkisvaldið ákvarðar skattahækkun til handa sveitarfélögunum. Það ákvarðar nýjan tekjuauka, viðurkennir tekjuþörfina, en segir sveitarfélögunum að bera ábyrgðina á framkvæmdinni. Þessu hafna ég og þessu höfnum við í Samfylkingunni. Því vil ég láta það koma skýrt og glöggt fram strax við þessa umræðu, þó að að forminu til heyri það undir annan lið dagskrárinnar, því að hér er eiginlega um bandorm að ræða, nokkur frv. sem lúta að þessu meginmáli sem við ræðum hér.

Við höfum lagt til breytingartillögu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem við tryggjum að skattgreiðendur borgi ekki þennan brúsa, þessar auknu heimildir í útsvari heldur lækki ríkissjóður, sem er vel aflögufær, tekjuskattinn til jafns þannig að það sé alveg skýrt. Við höfnum með öðrum orðum þessari skattahækkunarleið ríkisstjórnarinnar. Við höfnum henni algerlega. Mér finnst það satt að segja dapurlegt fyrir Framsfl. og hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála að hann skuli fara fram með þeim hætti að bera upp þennan boðskap Sjálfstfl. Auðvitað væri það hollt og gott fyrir hæstv. fjmrh. að vera við þessa umræðu strax frá byrjun því að eins og ég sagði áðan er þetta mál samtengt á alla lund, en hann kemur hér á eftir og mælir fyrir beinum skattalegum áhrifum þessara tillagna. Það er auðvitað þannig, herra forseti, og óþarfi að draga neina dul á það, því með því fylgdust allir, ekki eingöngu við sem sátum í þessari tekjustofnanefnd núna síðsumars heldur þjóðin öll, að oddviti þessarar ríkisstjórnar, hæstv. forsrh., kom fram í fjölmiðlum með þá yfirlýsingu að sveitarfélögin í landinu þyrftu ekki krónu, þau þyrftu bara að læra að stjórna, þau þyrftu bara að læra að spara, þyrftu bara að læra að draga úr. Ég er ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli í þessu samhengi. Þetta hafði auðvitað veruleg áhrif á störf þeirrar nefndar sem kölluð hefur verið tekjustofnanefnd og ég sat í með öðru ágætu fólki.

[11:00]

Það var einfaldlega þannig að Sjálfstfl. hafði ekki nokkurn áhuga á eða vilja til þess að leggja sveitarfélögunum í landinu lið. Og hver var ástæðan? Margir kunna að spyrja hvernig standi á því að hæstv. forsrh. sér sérstaka ástæðu til að fara fram með þessum hætti, maður sem er þaulvanur sveitarstjórnarmálum og þekkir mætavel hag sveitarfélaganna, hlutverk þeirra og eðli. Það skyldi þó aldrei vera að þarna væri maðkur í mysunni, að Sjálfstfl. þyldi það ekki og vildi ekki á einn eða neinn máta koma til liðs við sveitarfélögin í landinu vegna þess að í hinu langstærsta þeirra væru vinstri menn við völd, væri R-listinn við völd en ekki Sjálfstfl. Það skyldi þó aldrei vera að þarna væri einhver pólitísk flétta á ferðinni? Einhver pólitísk flétta á borð við þá að þegar sveitarfélögin ætla að nýta sér þær auknu heimildir sem hér er lagt upp með, heimildir sem leiða sannarlega til skattahækkana á almenning og Reykjavíkurborg mundi hugsanlega ganga til þeirra verka eins og önnur sveitarfélög, að þá kæmu íhaldsmennirnir í minni hluta borgarstjórnar og segðu: Ha, ha, þarna sjáið þið. Það eru þessir skattakóngar, vinstri menn í Reykjavík, sem ætla að fara að leggja auknar álögur á borgarbúa. Auðvitað verður fylgst með því í þessari pólitísku fléttu íhaldsins, sem hæstv. félmrh. hefur einhvern veginn blandast inn í óafvitandi mestan part, held ég, hvernig þeir munu haga orðum sínum og gerðum í borgarstjórn Reykjavíkur.

Hér erum við að ræða, herra forseti, ekki aðeins þetta mál efnislega heldur er um ramma og klára pólitík að ræða. Það sýnir allur aðdragandi málsins, öll umgjörð málsins og öll framganga þess, og ég bið hæstv. félmrh. að vanda sig við meðferð þess og ganga ekki frekar í björg íhaldsins en orðið er. Nóg er nú samt. --- Já hann hlær.

Herra forseti. Það er hins vegar þannig með það mál sem við ræðum hér og það veldur mér einnig nokkrum vonbrigðum að í þessa ferð var farið á miðju síðasta ári þegar sett var á svokölluð tekjustofnanefnd og menn hafa unnið samviskusamlega síðan, að menn vildu ræða það dálítið vítt og breitt með hvaða hætti sveitarfélögin í landinu skyldu afla tekna. Menn vildu m.a. ræða það sem hæstv. félmrh. ræddi undir þeim formerkjum. Hér væri ábyrgð sveitarfélaganna, hvort til að mynda sveitarfélögin ættu yfirleitt að búa við þak á útsvari og hvort það ætti ekki að vera á hendi sveitarfélaganna eða sveitarstjórnarmannanna sjálfra að taka ákvörðun um það. Að vísu er stjórnarskráin þannig saman sett að það er þessi stofnun hér sem leggur á skatta en ekki sveitarfélögin. En þessu viðhorfi má hins vegar mæta á þann hátt að hækka útsvarpsprósentuna upp í 20% eða 30% þannig að í verki væru það sveitarstjórnirnar sjálfar sem tækju ákvörðun um það. Á sama hátt mætti taka ákvörðun um að taka af svokallað gólf í útsvari, og ég hef gjarnan verið til umræðu um það mál, var þess mjög fýsandi og lýsti því margsinnis yfir á mínum stutta tíma sem félmrh. árið 1994. Það er allt gott og blessað. Það á hins vegar ekki við núna þegar menn eru að skila ránsfeng, ríkisstjórnin að skila til baka því sem hún hefur tekið. En um þetta vildi ég ræða.

Ég vildi líka ræða það mjög gjarnan hvort menn vildu festa sig algerlega í sessi með það fyrirkomulag tekjustofna sem nú er til staðar. Sveitarstjórnarmenn og við í nefndinni leituðum með atbeina sveitarstjórna vítt og breitt um landið og kölluðum eftir hugmyndum þeirra og ábendingum og þær voru margar mjög athyglisverðar og í þessari skýrslu er að finna margar góðar hugmyndir í þá veru.

Ég hreyfði því til að mynda í nefndinni hvort menn vildu ekki á einhvern hátt tengja á nýjan leik atvinnurekstur í sveitarfélögum og tekjustofna sem á var skorið á sínum tíma þegar aðstöðugjaldið var aflagt, ekki með því að endurnýja aðstöðugjaldið. Það var barn síns tíma, heldur t.d. með hlutdeild í tekjusköttum atvinnufyrirtækja, hlutdeild í tryggingagjaldi og einnig hitt sem margir hafa bent á, hvort sveitarfélögin eigi ekki líka að vera raunverulegir þátttakendur í neyslu samfélagsins, með öðrum orðum eiga hlutdeild í veltusköttum.

Þá var á það bent líka vegna þess að sveitarfélögin hafa viðamikil verkefni þegar kemur að umferð, hvort ekki væri eðlilegt að sveitarfélögin hefðu þá hlutdeild í umferðarsköttum eða eldsneytissköttum. Það voru því mörg sjónarmið sem þarna var hreyft sem ég hefði viljað að menn hefðu kannski unnið betur með en ekki lent að lyktum í þessari þröngu pólitísku stöðu sem varð til vegna, að minni hyggju, fullkomlega óskiljanlegra en þó skiljanlegra yfirlýsinga forsrh.

Ég velti því til að mynda líka upp í þessari nefnd og bið hv. þm. að hugleiða það hvort þessi mál séu ekki komin á dálitlar villigötur þegar nú er tekin um það ákvörðun sem ég er efnislega sammála að fasteignaskattur verði mismunandi eftir byggðarlögum í landinu og taki mið af raunverðmæti eigna en ekki endurstofnverði eins og áður var. Það þýðir í raun það að fasteignaskatturinn er orðinn jöfnunarskattur, ef svo mætti segja. Er það eðlilegur tekjustofn fyrir sveitarfélögin þar sem hann fellur mjög misjafnlega á skattgreiðendur vítt og breitt um landið og leiðir til þess að enn þarf að leggja fjármuni í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, í þessu tilviki um 1,1 milljarð kr.? Ég hef talsverðar efasemdir um það og velti því fyrir mér hvort nú sé ekki málum þannig komið að fasteignaskatturinn eigi að renna til ríkisins vegna þessara breytinga sem hér hafa orðið og ég leggst ekki gegn. Jafnframt velti ég því líka upp, herra forseti, hvort menn þurfi ekki að staldra eilítið við og velta vöngum yfir því á hvaða ferðalagi við erum varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, jöfnunarsjóð sem sannarlega á rétt á sér bara vegna heitisins sem segir allt, þ.e. að jafna stöðu sveitarfélaga sem er auðvitað mjög mismunandi hringinn í kringum landið. En er það mjög eðlilegt að sennilega eftir þær breytingar sem nú verða og hugsanlega þær breytingar sem fram undan eru með tilflutningi málefna fatlaðra, að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga telji orðið 13 milljarða kr., sé orðinn um það bil 20--25% af tekjustofnum sveitarfélaga? Nei, mér finnst það umhugsunarefni og ég velti því fyrir mér hvort það ferðalag sé eðlilegt. Ég spyr mig um það.

Nú er það þannig að sveitarfélögin borga 2,8 milljarða kr. sjálf sem hlutdeild af útsvari inn í Jöfnunarsjóð, eru með öðrum orðum að jafna innbyrðis. Ég spyr líka: Er það hlutverk sveitarfélaganna í landinu að eitt greiði niður þjónustu annars staðar? Ég held að það sé ekki þannig. (Gripið fram í.) Ég held að það sé hlutverk annarra. Ég held að það sé hlutverk ríkisvaldsins. Svo sannarlega er ég þeirrar skoðunar að þetta jöfnunarhlutverk þurfi að vera til staðar en spurningin er hvar er eðlilegt að það sé. Ég sé það ekki í hendi mér að tekjustofnar sveitarfélaga séu þannig upp byggðir að það sé sérstakt hlutverk sveitarfélaganna í landinu að jafna sín á milli. Það hefur aldrei verið nein stefna neins staðar en það hefur þróast í þá veru. Ég velti þessu hér upp til umhugsunar og ég held að við þurfum að ræða það mál miklum mun betur.

Herra forseti. Ég sagði áðan að ég áttaði mig ekki fyllilega á því á hvaða fundi hæstv. félmrh. hefði verið á Sögu um daginn eða í hvaða horni salarins því áskoranir sveitarfélaganna í landinu hafa komið inn í stórum stíl þar sem þau hafa lýst yfir óánægju sinni með það hlutverk sem þeim er gert hér, að hækka skatta á almenning. Þannig hafa sveitarfélög í kjördæmi mínu, Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, raunar á fundi sem hæstv. félmrh. var á ályktað í þessa veru mjög klárlega og skorað á Alþingi að lækka tekjuskattsprósentuna til jafns. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur gert hið sama. Mér er kunnugt um að bæjarstjórn Hafnarfjarðar gerði það í fyrradag og þar eru engin pólitísk skil á milli. Þar er ekkert um það að ræða að stjórnarandstaðan í þessum apparötum eða sveitarfélögum segi eitt og stjórnin annað eins og hæstv. ráðherra vill leggja þetta hér upp, að hér sé framlagning mín og fyrirvari minn í nefndinni, sem er á mjög málefnalegum grunni, eingöngu grundaður á því að hér sé um gamaldagsgaspur í stjórnarandstöðu að ræða. Nei, það er ekki þannig. Það eru allar sveitarstjórnirnar, allir flokkar, og ég vek athygli á því að í mörgum sveitarfélögum hringinn í kringum landið og kannski allt of mörgum er málum þannig háttað að þetta ríkisstjórnarmunstur ræður ríkjum. Það er ekki síst þar sem vandinn er mikill og mestur og það er ekki síst þar sem þeir flokkar þurfa að leggja auknar álögur á skattgreiðendur í landinu.

Herra forseti. Um þetta er engin sátt, það er bara þannig. Það verður auðvitað aldrei sátt um það að vandinn sé einfaldlega leystur með því að leggja auknar álögur á fólk. Og dæmið er einfaldlega svona:

Í útsvari hækka tekjur um 3,7 milljarða og einhver þarf að borga það. Ríkissjóður ætlar að lækka tekjuskatt á móti um 1.250 millj. Það þýðir að hrein og klár skattahækkun er upp á 2,5 milljarða kr. Á móti því kemur það að vísu að fasteignaskattur úti á landi lækkar þannig að skattgreiðendur að óbreyttu samkvæmt þessari jöfnun munu standa jafnsettir eftir á landsbyggðinni. En gætum að. Búið er að lofa fólki á landsbyggðinni því í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og hefur svo sem ekki með þetta mál að gera að lækka fasteignaskatt á fólk. Það hefur talist vera sanngirnismál og eðlilegt mál. Hér eru menn því að missa það tækifæri og ætla að jafna út þessa skattalækkun sem lofað var með því að hækka útsvar á móti. Á höfuðborgarsvæðinu er málið kvitt og klárt. Útsvarið hækkar einfaldlega um 10 þús. kr. á hvern einasta einstakling ef þessar heimildir verða notaðar í topp. Það þýðir 50 þús. kr. að meðaltali á fimm manna fjölskyldu og það munar um minna og allt tal um barnabætur í þessu samhengi virkar sem hjóm eitt. Hér eru menn að leggja fram skattahækkunarfrumvarp. Köllum hlutina sínum réttu nöfnum, herra forseti, og það skulu vera mín lokaorð.