Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 11:12:35 (1462)

2000-11-09 11:12:35# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[11:12]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Það var margt ágætt í ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar og ég get á vissan hátt deilt áhyggjum hans varðandi jöfnunarsjóð, hvernig framvinda hans er, en hins vegar fannst mér fara dálítið lítið fyrir jafnaðarmanninum Guðmundi Árna Stefánssyni þegar einmmitt var verið að fjalla um jöfnunarsjóðinn.

Ég var einmitt á þessari fjármálaráðstefnu eins og hv. þm. og ég get tekið undir það með hæstv. félmrh. að mér fannst hljóðið í sveitarstjórnarmönnum í stórum dráttum ljómandi gott. Það er ákveðinn þáttur sem menn deila um í þessum tillögum, það var útsvarshækkunin árið 2002, en í stórum dráttum öðrum voru sveitarstjórnarmenn ánægðir með þetta. (Gripið fram í.) Það var t.d., ef hv. þm. hefur fylgst vel með í Suðurlandskjördæmi en hv. 6. þm. Suðurl. kallar hér fram í, þá eru sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi gríðarlega ánægðir með það að nú loksins er verið að breyta álagningu fasteignagjalda. Í gegnum tíðina, a.m.k. um fimm ára skeið, hefur verið mjög mikil ósanngirni í álagningu fasteignagjalda úti á landsbyggðinni og það veit hv. þm. (Gripið fram í.) Já, en hv. þm. gjammaði fram í og það var þess vegna sem ég var að svara honum og ef hann fylgist með í kjördæmi sínu, herra forseti, þá veit hv. þm. að íbúar hafa verið gríðarlega óánægðir með þetta og þetta er verið að leiðrétta.

Ég vil minna hv. þm. á að í stjórnartíð Alþfl. og Sjálfstfl. á árabilinu 1991--1995 fór fjmrh. einfaldlega ofan í kassa sveitarsjóðanna og hirti þaðan peninga til þess að leggja í Atvinnuleysistryggingasjóð.