Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 11:19:00 (1465)

2000-11-09 11:19:00# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[11:19]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er einungis þessi útsvarshækkun sem er ásteytingarsteinninn en hún er bara kjarni málsins, virðulegi þingmaður. Um það snúast þessar tillögur fyrst og síðast. Þar eru peningarnir sem máli skipta. Aðrar tillögur þessarar nefndar, eins og ég sagði áðan, eru sumpart prýðilegar og það er ekkert annað um þær að segja. Það er t.d. prýðilegt ef menn ætla að taka upp það verklag, þó það sé ekki inni í þessu frv., að kostnaðarmeta öll frv. sem lúta að sveitarfélögunum og óháður aðili verði kallaður til þeirra verka. Í þessari skýrslu er margt gott að finna. Hafi ég ekki sagt það áður þá segi ég það núna að undir forustu kollega okkar í þinginu, hv. þm. Jóns Kristjánssonar, var mjög gott starf leyst af hendi. Ég dró aldrei í efa vilja hans til að leiða þessi mál til lykta. En hann mátti ekki við margnum. Hann mátti ekki við hæstv. ríkisstjórn því að hún greip í taumana og leiddi þetta mál til þeirrar niðurstöðu sem hér blasir við okkur, nefnilega að hækkun skatta. Það er alltaf slæmt, herra forseti, þegar menn fjarlægjast uppruna sinn og týna rótunum.

Þannig er málum háttað að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason stjórnaði áður vaxandi sveitarfélagi á Suðurlandi, Hvolsvelli. Það er sem ég sjái hann í því hlutverki, fagna því sérstaklega að ríkisstjórnin sendi honum ordru um að vilji hann auknar tekjur í sveitarfélagið, þá hækki hann bara skatta á íbúana. Það er sem ég sjái hann gleðjast sérstaklega yfir því. (ÍGP: Ég mundi ekki fagna því.) Nei, hann hefur ekki fagnað því. Þess vegna vænti ég þess að hann taki undir breytingartillögur okkar í stjórnarandstöðunni þess efnis að það verði ekki hlutskipti kollega hans og sveitunga á Hvolsvelli að þurfa að fara þá leiðina heldur verði jafnað á sléttu og tekjuskattur lækkaður til jafns við hækkun á útsvari. Þá gætu menn gengið sæmilega glaðir frá þessu verki.