Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:10:52 (1474)

2000-11-09 12:10:52# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:10]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við þurfum ekkert að deila um það og hv. þm. leiðréttir mig þá ef ég fer rangt með. Það er einfaldlega þannig að ríkissjóður er að skila tugmilljarða kr. afgangi. Sveitarfélögin hafa verið að skila milljarða kr. halla á hverju einasta ári með þeirri afleiðingu að nettóskuldaaukning þeirra á síðustu 10 árum er upp á 21 milljarð kr. á sama tíma og ríkissjóður er að greiða niður skuldir sínar.

Ég spyr hv. þm. undir þessum kringumstæðum: Er ekki ósköp rökrétt og eðlilegt að sæmilegt jafnræði sé með þeim tveim opinberu aðilum sem sinna þessari mikilvægu þjónustu við almenning í landinu og gefur það ekki augaleið undir þessum kringumstæðum að þarna þurfi að renna fjármunir frá einum til hins? Er þá ekki sjálfsagt og eðlilegt að undir þeim kringumstæðum sem ég lýsti að sveitarfélögin fái þá fjármuni sem allir eru sammála um að þau vanti en ríkissjóður leggi þá til en ekki skattgreiðendur? Ég spyr: Fer ekki léttur hrollur um hv. þm. þegar hann sendir kjósendum sínum reikninginn eins og hér er ráðgert, útsvarshækkun, skattahækkun á almennar launatekjur upp á tæpa 4 milljarða kr. sem eru þó mildaðar eins og segir í greinargerð með þessu frv. upp á 1.250 en engu að síður hrein og klár skattahækkun upp á 2,5 milljarða kr.? Fer ekki léttur hrollur um hann? Finnst honum þetta ekki erfitt hlutskipti af því að við vitum það af fréttum að samstarfsflokkurinn, Sjálfstfl. hefur knúið sérstaklega á um þetta? Ég vil trúa því að hv. þm. sérstaklega og kannski hugsanlega hæstv. ráðherra hafi viljað gera þetta með öðrum hætti, einmitt með þeim hætti sem ég hef hér lýst. Ég vil trúa því þar til annað sannast.