Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:46:58 (1482)

2000-11-09 12:46:58# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:46]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur talsmaður Sjálfstfl. talað og það er út af fyrir sig athugunarefni hvers vegna hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur umræðuna því að hér er um bandorm að ræða, nátengd mál. Talsmaðurinn skautaði býsna létt yfir meginefni þessa máls og ég bið hv. þm. að halda sig við efnið. Ef hv. þm. ætlar að svara mér því kannski á hvaða fundi það var í tekjustofnanefnd sem barnabæturnar voru sérstaklega ræddar, þá þætti mér vænt um að heyra það en það er bara ótengt mál. Eigum við ekki að ræða bensínverðið eða verðbólguna eða veðrið? Við skulum halda okkur við kjarna málsins.

Ég spyr hv. þm. einnar spurningar. Hafði hv. þm. um það sérstök orð í kjördæmi sínu, Austurlandskjördæmi, gagnvart íbúum sveitarfélaga þar á bæ þegar lofað var fasteignaskattslækkuninni að hún yrði tekin jafnharðan til baka í hækkun útsvars? Fylgdi það með í loforðapakkanum fyrir síðustu kosningar? Eða ætlar hv. þm. að neita því að hún er að leggja auknar álögur á kjósendur sína?