Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:50:37 (1485)

2000-11-09 12:50:37# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:50]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott ef þetta er allt svona einfalt en það voru samt sem áður margar tillögur sem við lögðum til í niðurstöðum okkar í okkar ágætu nefnd sem við áttum bæði sæti í, ég og hv. þm.

Við erum auðvitað að tala um mjög mikilsverða réttarbót varðandi fasteignagjöldin og hún kemur helst fram úti á landi. Það liggur í hlutarins eðli. Hækkun barnabótanna skiptir auðvitað mjög miklu máli líka. Við erum að tala um breytingar sem hafa áhrif á allan skattapakka hvers einstaklings og þetta eru margvíslegar breytingar. Verið er að breyta áherslum og það er augljóst mál að þó svo við leggjum til auknar heimildir til sveitarfélaganna til að hækka útsvarið, þá er ekkert alveg jafnaugljóst að sveitarfélögin muni nýta sér þetta. Sveitarfélögin verða að hafa sínar heimildir.