Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 13:33:53 (1494)

2000-11-09 13:33:53# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[13:33]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Umræðan um loftslagsbreytingar af manna völdum og mögulegar afleiðingar þeirra er fyrirferðarmikil um allan hinn vestræna heim um þessar mundir. Frambjóðendur í forsetakosningum í Bandaríkjunum hafa hver um sig orðið að móta stefnu og svara áleitnum spurningum fréttamanna um efnið. Breskir fjölmiðlar eru mjög uppteknir af efninu og um alla Evrópu gætir hugleiðinga um þetta efni. Það er kannski helst á Íslandi að maður saknar umfangsmikillar og efnismikillar umræðu um málið.

Hluta af þessari auknu umfjöllun má rekja til frétta af væntanlegri skýrslu frá alþjóðlegri milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar IPCC og tengist hún umræðunni um væntanlegt sjötta aðildarríkjaþing rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem haldið verður í Haag 13.--24. nóvember nk. Það er víst að draga mun til tíðinda í Haag en þar munu ráðherrar og aðrir fulltrúar 160 þjóðríkja gera úrslitatilraun til að hraða aðgerðum svo koma megi böndum á losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum.

Herra forseti. Ef ég mætti biðja um að það yrði bara einn fundur haldinn í salnum þá yrði ég ánægð.

(Forseti (HBl): Mér finnst þetta mjög sanngjörn beiðni hjá hv. þm.)

Herra forseti. Yfirlýst markmið sjötta aðildarríkjaþings rammasamnings Sameinuðu þjóðanna er að ná niðurstöðu um þau sérákvæði sem hafa verið til umfjöllunar á vettvangi samningsins. Eitt af þeim ákvæðum sem leiða á til lykta í Haag er hið svokallaða íslenska ákvæði, en íslensk stjórnvöld hafa sem kunnugt er frá því að aðildarríkjaþingið var haldið í Buenos Aires 1998 lagt til ákveðna útfærslu þess ákvæðis sem enn hefur ekki verið tekin afstaða til. Íslenska ákvæðið felur það í sér að losun frá stóriðju á Íslandi sem komið hefur til eftir viðmiðunarárið 1990 og er áætluð fram yfir fyrsta skuldbindingartímabil samningsins, verði haldið utan við bókhald Kyoto-bókunarinnar. Með öðrum orðum, þar væri um að ræða a.m.k. 70% aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda til viðbótar við þau 10% sem Kyoto-bókunin heimilar Íslandi.

Herra forseti. Það er ekki oft sem hæstv. forsrh. eða aðrir stjórnarherrar á Íslandi tjá sig um þessi mál en þó má rifja upp áramótaræðu hæstv. forsrh. við áramót 1997--1998, en þar er ekki mikið gert úr þeim vanda sem stafar af sívaxandi losun gróðurhúsalofttegunda og lítið gert raunar með vísbendingar um tengsl öfgakenndra veðurfarsbreytinga og hlýnunar andrúmsloftsins af manna völdum. Í ræðunni segir hæstv. forsrh., með leyfi forseta:

,,... umræður um leyndardóma lofthjúpsins, vistkerfi og veðurfar þurfa að byggjast á hógværð, en ekki á hleypidómum. Við þurfum að viðurkenna að þekking okkar er brotakennd. Við höfum ekkert leyfi til að mála skrattann í sífellu á vegginn. Skollinn er æðileiðigjarnt veggskraut.

Menn verða að fara afar sparlega með stórslysaspárnar og forðast að skapa ótta hjá fólki með vísun til fræða, sem byggja á veikum grunni.``

Herra forseti. Þegar þessi orð voru töluð þá hafði milliríkjanefnd vísindamanna um loftslagsbreytingar, IPCC, sem er farvegur vísindaráðgjafar til rammasamnings Sameinuðu þjóðanna, sent frá sér skýrslu þar sem gróðurhúsaáhrif voru sögð merkjanleg og alvarlega varað við þeirri ógn sem af þeim gæti stafað. Um þessar mundir er væntanleg ný skýrsla frá þessari sömu milliríkjanefnd þar sem kveðið mun enn fastar að orði en fyrr um alvarleik ástandsins.

Herra forseti. Hafi árið 1997 verið um að ræða fræði sem enn voru hulin nokkurri óvissu þá verður slíku ekki haldið fram í dag. Vísbendingarnar eru orðnar það sterkar að ráðherrar bresku ríkisstjórnarinnar hika ekki við að tengja skelfileg áhrif öfgakennds veðurfars þar í landi við loftslagsbreytingar af manna völdum. Hér eru sem sé ekki lengur á ferðinni tilgátur byggðar á veikum grunni, herra forseti, heldur vísbendingar sem þjóðarleiðtogar iðnríkja heims hafa kosið að taka af fyllstu alvöru og væri óskandi að það sama mætti merkja í málflutningi íslenskra stjórnvalda.

Herra forseti. Nú styttist óðum í þingið í Haag og ljóst að menn eru uggandi um niðurstöðurnar, óttast jafnvel að einhver iðnríkjanna muni skorast undan því að taka ákvarðanir sem gætu orðið óþægilegar fyrir efnahag þeirra. Af því tilefni er spurt hér, herra forseti: Hver verður tillaga íslensku sendinefndarinnar í Haag? Og í framhaldi af því: Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera ef hún nær ekki fram að ganga? Enn fremur er rétt að spyrja: Hvenær má vænta þess að ný framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar muni líta dagsins ljós? Með öðrum orðum, hvar er stödd vinna hins svokallaða stýrihóps ráðuneytisstjóra um loftslagsmál? Og lokaspurningin er, herra forseti: Telur hæstv. ráðherra enn að niðurstöður rannsókna og ábendingar vísindamanna upp á síðkastið um tengsl veðurfarsbreytinga og hlýnunar lofthjúps af manna völdum séu leiðigjarnt veggskraut?