Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 13:52:24 (1500)

2000-11-09 13:52:24# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það eru fleiri og fleiri váboðar uppi sem sanna spádóma fyrri tíma um að umfang iðnaðar í heiminum valdi gróðurhúsasáhrifum og Íslendingar standa frammi fyrir því hvort þeir ætla að standa með öðrum þjóðum við það að taka á því vandamáli til þess að skila jörðinni byggilegri til afkomenda okkar.

Íslendingar hafa ekki gert neitt til að koma þeim fyrirætlunum sínum fram. Við erum þvert á móti sífellt að auka útblástur okkar og þó að við færum ekki í stóriðju, þá erum við sennilega búnir að ná hinum OECD-ríkjunum á næstu fjórum til fimm árum. Ef við förum í stóriðjuframkvæmdir, þá erum við komnir langt fram úr þeim, komnir upp í 14--15 tonn á íbúa á móti 12 tonnum sem þar eru, þannig að við þurfum að gá að okkur í þessu.

Ég tek eftir því, herra forseti, að í umræðunni hafa ekki tekið þátt af stjórnarinnar hálfu nema sjálfstæðismenn. Ég tel ástæðu til þess að spyrja eftir því hvort hæstv. umhvrh. ætli ekki að blanda sér í umræðuna og segja álit sitt og þar með Framsfl. á þeim málum sem hér eru til umræðu.

Við erum með stórkostlegan bílaflota sem er stærri en fyrirfinnst á jarðríki á hvern mann nema í Ameríku. Við erum með fiskiskipaflota sem er enn þá stærri í samanburði við aðrar þjóðir. Það hefur ekkert verið gert til þess að draga úr mengun eða beina notkun á orkugjöfum inn á einhverjar brautir til sparnaðar af hendi ríkisvaldsins.(Gripið fram í.) Hvaða aðgerðir eru það? Við höfum engar séð. Þó að mengunin á Íslandi muni ekki valda heiminum óbætanlegum skaða þá getur mengunin í heiminum valdið Íslandi óbætanlegum skaða. Það þurfum við að hafa í huga þegar við erum að ræða um þessi mál á alþjóðavettvangi. Við verðum að taka á okkur fulla ábyrgð og taka þátt í þeim aðgerðum sem aðrar þjóðir vilja fara í til þess að bjarga jarðkúlunni.