Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:22:31 (1525)

2000-11-09 16:22:31# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég kom inn á þing undraðist ég alltaf að vinstri menn töluðu iðulega í fleirtölu um skoðanir sínar. Þeir sögðu alltaf: Við erum þeirrar skoðunar. Við teljum þetta og við teljum hitt. Þeir sögðu aldrei: Ég. Þeir höfðu sem sagt einhvers konar sameiginlega skoðun. Ég hef hins vegar mína skoðun og mín skoðun er ekki skoðun Sjálfstfl., langt frá því. (Gripið fram í:Í hvaða flokki ertu?) Ég er í Sjálfstfl. vegna þess að hans skoðanir fara næst skoðunum mínum. Ég styð þau mál sem þar koma fram en ég er ekki talsmaður Sjálfstfl., langt frá því.

Ég var spurður að því hvort hallærið hér áður hafi verið þeirri ríkisstjórn sem þá sat að kenna. Það tekur töluverðan tíma að bremsa af. Það tekur töluverðan tíma að koma efnahagslífinu af stað. Það tekur mörg ár. Þær ráðstafanir sem farið var út í strax í byrjun til að örva atvinnulífið virkuðu kannski tveimur, þremur árum seinna. Það er einmitt það sem hefur gerst.

Spurt var hvort ég teldi ekki að með verkefnum sem flutt hafa verið til sveitarfélaganna frá ríkinu ætti að fylgja gjaldstofn. Að sjálfsögðu. Það var líka gert. Með flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna fengu þau einnig gjaldstofn, þau hafa fengið tekjur á móti auknum útgjöldum og að sjálfsögðu á að gera það. Spurningin er hvort það hafi verið rétt reiknað. Það er spurning. Og hvort kröfurnar hafi vaxið í flutningi, það er önnur spurning.

Varðandi það að banna skuldasöfnun þá skal ég gefa dæmi. Ég og nokkrir kjósendur búum í sveitarfélagi og ákveðum að hafa útsvarsprósentuna eins lága og hægt er, safna miklum skuldum og svo flytjum við úr sveitarfélaginu.