Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:44:38 (1539)

2000-11-09 16:44:38# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk upplýsingar um að 43 af 123 sveitarfélögum nýta ekki hámarkið. Það er þriðjungur þeirra, hvorki meira né minna. Það er ekkert lítið.

Varðandi það að sveitarfélög séu sum hver á láglaunasvæði þannig að þau fái lágt útsvar. Það skyldi ekki vera að starfsmenn sveitarfélagsins væru þá líka á láglaunasvæði? Eða eru starfsmenn sveitarfélagsins annars staðar en sveitarfélagið sjálft? Ef sveitarfélagið er á láglaunasvæði og fær lágt útsvar þá eru starfsmennirnir væntanlega á sama svæði og fá lág laun.

[16:45]

Varðandi hvort ég sé málsvari Sjálfstfl., þá er ég aðallega málsvari sjálfs mín. Það er kannski dæmi um að við, ég og hæstv. forsrh., erum í sama flokki að við skulum vera sama sinnis í þessu máli.