Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 17:02:55 (1542)

2000-11-09 17:02:55# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[17:02]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur að ég ræddi í sama orðinu um ræðu hennar og hæstv. félmrh. þar sem ég átaldi þau fyrir að nefna barnabæturnar hér til sögunnar. Það er rétt hjá hv. þm. að það var ekki úr hennar ræðu sem ég hafði feðraorlofið heldur úr ræðu hæstv. félmrh. sem nefndi það í sömu andrá og rætt var um barnabæturnar.

Varðandi hátekjuskattinn þá er ljóst, herra forseti, að hann er nokkuð sem tilefni hefði verið til að fjalla um við þessa umræðu. Um hann á ekki eingöngu að ræða í sambandi við sveitarfélögin. Það á að ræða um hátekjuskatt á breiðum grunni. Það á að ræða um hann í tengslum við skattbreytingar, mögulegar breytingar á skattkerfi okkar. Ég talaði líka mikið um hlutdeild í eignarskatti. Það er ekki sanngjarnt að sveitarfélögin skuli ekki fá meiri hlutdeild í almennum eignarskatti en raun ber vitni. Við vitum að stór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu vinna jafnmikið í þágu sveitarfélaganna úti á landi þó að eignir þeirra séu hér.

Allt tal um að ég hafi krafist þess að tekjuskatturinn yrði lækkaður er náttúrlega er slitið úr samhengi við annað sem ég sagði í minni ræðu en ég ítreka það sem ég nefndi varðandi bókhaldsreglurnar. Það er alveg ljóst að lítið fyrirtæki, lítið sveitarfélag úti á landi sem telur kannski örfáa tugi eða kannski hundrað manns, sem þarf að lúta þeim bókhaldsreglum sem sveitarfélögum eru settar, hefur af því talsverðan kostnað. Ég hef líka fært bókhald. Ég er ekki að mæla gegn því að það sé gert á heiðarlegan og réttan hátt en þetta er einungis nefnt sem lítill hluti af öllu ferlinu, að það er verið að leggja álögur á sveitarfélögin með breyttum reglum.