Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 17:28:07 (1549)

2000-11-09 17:28:07# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[17:28]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum. Mikið hefur verið rætt í dag um frv. en ég vil aðeins koma hér með innlegg í meginatriðum.

Frv. veldur mér mjög miklum vonbrigðum vegna þess að ég hélt að menn ætluðu að stíga afdrifaríkt spor til að rétta stöðu sveitarfélaganna og þá um leið að undirbyggja aðgerðir til þess að sveitarfélögin úti á landsbyggðinni hefðu lífvænlega möguleika. Ekki hefur verið farið í slíkt, það er viðurkennt að rekstrarafkoma sveitarsjóða á Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi hefur versnað mun meira en í Reykjavík og á Reykjanesi, er sagt hér.

Það er nefnilega alveg augljóst að hér er um breytingar að ræða sem eru fram komnar vegna mikillar pressu, vegna mikillar óánægju skattborgaranna út af fasteignaskattinum úti á landi. En sú lausn að leggja 700 millj. kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er líka til komin vegna þess að verst settu sveitarfélögin klára sig einfaldlega ekki nema slíkt sé gert. Hér er gengið allt of skammt og hugsað allt of lítið um grundvöllinn að því hvernig við ætlum að koma okkur upp úr þessu fari sem við erum komin í. Það er nefnilega ekki hægt að setja rekstrarafkomu sveitarsjóða á allri landsbyggðinni í sama flokk, setja öll sveitarfélögin undir sama hatt vegna þess að staða þeirra er ákaflega misjöfn.

[17:30]

Virðulegi forseti. Úr því að hæstv. félmrh. er staddur í salnum undrar það mig að menn skuli ekki deila landsbyggðarsveitarfélögunum upp í a.m.k. tvo flokka, þ.e. þau sveitarfélög sem eru ekki sjálfbær og þurfa hjálp og síðan þau sveitarfélög sem finnast blessunarlega og eru enn sjálfbær. Stöðu þeirra og náttúrlega sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á auðvitað að leiðrétta með almennum aðgerðum og undirbyggingu tekjustofna en síðan að nota jöfnunarsjóðinn sem neyðarúrræði fyrir þau sveitarfélög sem eru alls ekki sjálfbær. Þarna er meginmunur á og ég er satt að segja hissa á að miðað við þá miklu vinnu sem hefur verið lögð í málið varðandi öflun gagna skuli menn ekki hafa kortlagt betur hvaða markmiðum þeir vilja ná. Það er algjörlega nauðsynlegt að finna formúlu til þess í gegnum þá vinnu sem hér fer fram og í gegnum önnur lög, sem ég kem að síðar, sem þarf að fara í. Ég á þá við að æskilegt sé að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga verði breytt og eftirtalin verkefni færð til ríkisins eins og nefndin segir í 7. gr. tillögunnar. Það er stofnkostnaður sjúkrastofnana og heilsugæslustöðva, stofnkostnaður framhaldsskóla, þar með talið heimavistir og Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Það er algjörlega nauðsynlegt í þeirri stöðu sem við erum í að setja ekki bara plástur á sárið. Hér er sú aðferð viðhöfð að setja plástur á sárið og rekstrargrunnurinn er í engu leiðréttur. Sveitarfélögin standa uppi með bullandi skuldir og ekkert er tekið á kerfisbreytingum, hagræðingu og öðru slíku sem er algjörlega nauðsynlegt ef við ætlum að koma sveitarfélögum, þá sérstaklega á landsbyggðinni, út úr þeirri klemmu sem þau eru í.

Sú formúla sem er notuð, jöfnunarsjóðsformúlan, að smyrja heilt yfir og ganga ekki til verka þannig að aðgerðir sem hið opinbera stendur að með fjárframlögum og stuðningi við kerfisbreytingar miði að því að sveitarfélögin verði lífvænleg á eftir, leiðir til þess að við fáum enn meiri fólksflótta og við fáum enn meiri erfiðleika á næstu missirum eftir að þetta er gert. Danir fóru í gegnum --- þó að það sé í öðru samhengi --- vandræði með landsbyggðastefnu sína upp úr 1970. Sú formúla sem við ætlum að nota gagnvart landsbyggðarsveitarfélögunum með jöfnunarsjóðsaðferðinni er sú aðferð sem Danir kölluðu ,,landsbyggðin deyr``. Málið er að þeim sveitarfélögum sem hafa á undanförnum árum sameinast í voninni um að tekið yrði á grunnmálum þeirra og þau fengju framlög til að standa að opinberri þjónustu, svo sem vegagerð og skólahaldi, og byrja á nýjum grunni, hefur í flestum tilfellum mistekist algjörlega og nægir að nefna harmakvein frá Vesturbyggð í því sambandi sem forsvarsmenn þeirra hafa úttalað sig um að ekkert sem ríkið þóttist ætla að koma að með og hjálpa til með hafi staðist. Þetta eru grundvallaratriði að mínu mati sem verður að fara í.

Í 3. tillögugreininni er talað um að fækka verði undanþágum frá fasteignaskatti eins og kostur er. Það eru ákvæði sem þarf að ræða miklu betur vegna þess að t.d. í landsbyggðarkjördæmunum, ef við tölum bara um sumarhótel og bændagistingu, eru fjárfestingar sem eru notaðar stuttan tíma ársins. Í þeim geira hafa menn bent á réttlæti þess og ég held að full ástæða sé til að taka undir það að skattlagning eigi sér bara stað á þeim tíma eða miðað við þann tíma sem viðkomandi fjárfesting er notuð vegna stöðu mála úti um landið.

Síðan er talað um að framlag í jöfnunarsjóð verði 700 millj. Ég get ekkert annað en fagnað því að ríkið setji í jöfnunarsjóðinn en ég gagnrýni formúluna fyrir því. Eins og stendur í séráliti og bókun frá fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga, og það hefur verið farið yfir það mörgum sinnum í dag, þá hefur tekjustofnanefnd þeirra í upphafi lagt áherslu á vandaða öflun og úrvinnslu gagna um fjárhagslega stöðu og afkomu sveitarfélaganna. Í sjálfu sér hefur enginn gagnrýnt þann grunn sem er lagður til undirstöðu mála. Tölulegar niðurstöður eru alltaf á einn veg, segir fulltrúi sveitarfélaganna, og leiða ótvírætt í ljós að mjög hefur hallað á sveitarfélögin í fjármálalegum samskiptum þeirra við ríkið allt frá 1991. Þeir benda á, eins og hefur margoft komið fram í umræðunni, að hér sé um að ræða 6--7 milljarða. Fulltrúi sveitarfélaganna segir í niðurlagi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Við teljum að sameiginlegar tillögur nefndarinnar séu fyrsta skrefið í áttina til frekari eflingar tekjustofna sveitarfélaganna í trausti þess að framvegis verði kostnaðarmetin öll lagafrumvörp og stjórnvaldsákvarðanir er sveitarfélögin varða eins og gert er ráð fyrir í tillögu nefndarinnar`` við undirritun hennar.

Þetta er allt góðra gjalda vert. En auðvitað er himinn og haf á milli þeirra tillagna og þeirra sem hér eru. Hér er um áfanga að ræða og hér þarf að koma miklu meira til.

Í umræðunni hefur líka verið nefnt að staða sveitarfélaganna úti um allt land og kannski sérstaklega á landsbyggðinni væri enn þá verri ef sum þeirra hefðu ekki verið í þeirri góðu stöðu núna á síðustu tíu árum að geta selt eignir. Sum hafa gert það ótæpilega og sum fyrir hundruð milljóna króna. Einhvers staðar endar sá möguleiki enda skilst mér að þau sveitarfélög sem voru í þeirri stöðu á þessu tímabili séu þó skást sett eins og staðan er í dag, þau séu skást sett sem höfðu möguleika á því að losa um eignir sem þau réðu yfir.

Breytta verkaskiptingu nefnir nefndin sem 7. lið í tillögum sínum. Hér er um að ræða stórmál sem er algjörlega nauðsynlegt að fara ofan í og því fyrr því betra. Í raun og veru hefði verið þægilegra fyrir margra hluta sakir að fá þetta frv. um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga á sama tíma og menn setja fram tillögur um breytta verkaskiptingu. Við vitum öll, sem höfum komið nálægt sveitarstjórnarmálum, að menn hafa farið í frekari verkaskiptingu þar sem menn hafa verið með reynslusveitarfélög og þar segja menn farir sínar ekki sléttar af viðureigninni við kerfið hjá ríkinu. Flest þau sveitarfélaga sem hafa farið út í þennan tilraunarekstur kvarta sáran undan því að þau hafi t.d. á tímum þurft að fjármagna reksturinn úr eigin sjóðum. Þau hafa þurft að leggja fram fé og þá er ég að tala um t.d. heilsugæslustöðvar og fleira. Margir hafa kvartað um þetta af sveitarstjórnarmönnum sem hafa tjáð sig um þessi mál undanfarið.

Varðandi 8. liðinn, þ.e. þjónustugjöld sveitarfélaganna, leggur nefndin til, henni vannst ekki tími til að fara yfir gjaldtökuheimildir sveitarfélaganna þar sem var um umfangsmikið verkefni að ræða, að heildarúttekt fari fram á gjaldheimtu sveitarfélaganna og bendir í því sambandi á að slík úttekt hefur þegar farið fram varðandi gjaldtökuheimildir ríkisstofnana.

Nú er það svo að ég veit ekki betur en að langflest ef ekki öll sveitarfélögin hafi farið í gegnum þessa vinnu á allra síðustu árum. Það eru nefnilega lög um samkeppni og ef um samkeppnisstarfsemi er að ræða hefur þess verið krafist, a.m.k. síðan fyrir fimm, sex árum, að þessi vinna sé unnin. Ég hef enga trú á öðru en að í bókhaldskerfi sveitarfélaganna og hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga sé grunnurinn að þessari vinnu alls staðar til. Mér er ekki kunnugt um annað sem gamall opinber starfsmaður hjá sveitarfélagi en að þessar stífu kröfur hafi verið gerðar í mörg ár. Það vandamál hlýtur því a.m.k. að vera úr sögunni. Ég spyr hæstv. félmrh. að því hvort það sé ekki réttur skilningur sem ég legg í það mál.

Mér finnst að síðustu mjög slæmt, ef menn ætla í alvöru að taka á rekstrarvanda sveitarfélaganna, að það skuli ekki vera gert á heildstæðari hátt. Það hefði átt að gera það með þessum lögum og það hefði átt að gera það með heildaryfirsýn yfir samskipti ríkis og sveitarfélaga. Við hefðum þurft að standa frammi fyrir því að geta skoðað á raunhæfan hátt hvernig við ætlum að koma rekstri sveitarfélaganna upp úr því feni sem þau eru í í dag því að plástraaðferðir, þ.e. jöfnunarsjóðsaðferð, duga bara um tíma. Þær eru ekki lausn til lengri tíma litið. Við verðum að standa þannig að málum á hinu háa Alþingi að við búum til nýjan grunn þegar í óefni er komið þannig að það verði rekstrarhæfni á eftir en við stöndum ekki frammi fyrir sama vanda eða e.t.v. verri vanda að örfáum missirum liðnum.